Hálfur áratugur liðinn frá kæru ÁTVR vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Enn hefur ekkert gerst. Óskiljanlegur seinagangur og sorglegur vitnisburður um vanvirka stjórnsýslu og meðvirk stjórnvöld að mati forvarnasamtaka.

Þann 16. júní 2025, voru nákvæmlega fimm ár síðan ÁTVR kærði ólöglega netsölu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Netsölu sem er ólögleg því hún selur áfengi í smásölu af lager á Íslandi til neytenda. Lögreglan hefur ekki klárað þetta samfélagslega mikilvæga mál á fimm árum, hálfum áratug. Engar skýringar hafa verið gefnar á því. Á meðan spretta upp ólöglegar áfengissölur og selja fyrir milljarða króna og hirða þannig fjármagn sem betur væri að rynni í ríkiskassann til að greiða fyrir neikvæðar afleiðingar óhóflegrar áfengisdrykkju. Sú staða er auðvitað með ólíkindum. Forvarnarsamtökin hafa lengi kallað á að niðurstaða fáist í þeim kærum, án árangurs.

Breiðfylking forvarnarsamtaka, að frumkvæði Fræðslu og forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum efndu af því tilefni til málþings undir heitinu Flöggum fána lýðheilsu! – málþing um áfengi og lýðheilsu, þann 16. júní síðastliðinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Málþingið var öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu.

Á málþinginu var fjallað um stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum, íþróttahreyfinguna og forvarnir. nýja skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og um stöðu ÁTVR í ljósi ferils kærumála á hendur netsöluaðilum áfengis. Fjallað var um afstöðu Íslendinga til bindindismála í gegnum tíðina á líflegan hátt og starf forvarnarsamtaka. Í lokin voru pallborðsumræður þar sem fulltrúum þingflokka var boðið til að ræða afstöðu stjórnmálaflokka til lýðheilsu og áfengis.

Málþingið var fjölmennt og fyrirlestrar beinskeyttir og áhugaverðir. Í fjarávarpi Dr. Hans H.P. Kluge, umdæmisstjóra skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrir Evrópu, kom skýrt fram að núverandi fyrirkomulag smásölu áfengis á Íslandi er vænlegast til árangurs í áfengisforvörnum. Hvatti hann Íslendinga til þess að standa vörð um það fyrirkomulag sem margar aðrar þjóðir öfunduðu okkur af.

Í fyrirlestrum Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra og Maríu Heimisdóttur landlæknis kom einnig fram skýr stuðningur við núverandi fyrirkomulag. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, rakti sögu og framvindu kæru ÁTVR, sem í stuttu máli er sú að ekkert hefur gerst á þeim fimm árum sem liðin eru frá kærunnu. Stefán Pálsson sagnfræðingur fjallaði um afstöðu Íslendinga til bindindismála í gegnum tíðina á líflegan hátt í erindi sem hann kallaði Alls engir skrælingjar…-Íslendingar, áfengið og orðsporið.

Willum Þór Þórsson forseti Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands ræddi um Íþróttahreyfinguna og áfengisforvarnir sínu innleggi og lagði áherslu á að kjarni starfsemi íþróttahreyfingunnar væri byggður á lýðheilsu og forvarnasjónarmiðum. Í máli sínu kom hann einnig inn á áfengissölu íþróttafélaga á keppnisleikjum og þá gagnrýni Á hana. Sagði hann málið flókið þar sem þyrfti bæði að taka tilliti til rekstrarsjónarmiða félaganna og lýðheilsuþáttarins. Af þessu er ljóst að nýr forseti sambandsins, og stjórn þess, hafa verk að vinna til þess að hrista af sér þann tvískinnung sem þetta hefur í för með sér að margra mati.

Í panelumræðum, þar sem fulltrúar allra þingflokka nema Miðflokksins mættu, ræddu þingmennirnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flokkur Fólksins), Ingibjörg Isaksen (Framsókn),  Sigurþóra Bergsdóttir (Samfylking), Vilhjálmur Árnason (Sjálfstæðisflokkur) og Grímur Grímsson (Viðreisn). viðhorf sín til lýðheilsu og áfengis, meðal annars fyrirkomulag smásölu áfengis, komu fram nokkuð skýrar línur. Fulltrúar Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Flokks fólksins lýstu yfir stuðningi við núverandi fyrirkomulag, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar töldu enga ástæðu til þess að viðhalda því.

Í áskorun samtakanna sem stóðu að málþinginu til lýðheilsusinna um árvekni og samstöðu, og lesin var upp í lok málþingsins, segir meðal annars:

Við mótmælum því skeytingarleysi sem ríkir gagnvart þeirri ólöglegu netsölu áfengis sem fram fer hér á landi og illa ígrunduðum áformum um að heimila hana með lögum, sem augljóslega grefur undan núverandi fyrirkomulagi. Í jafn afdrifaríkum málum eins og áfengismálunum þarf að hafa lýðheilsusjónarmið og almannaheill að leiðarljósi.

Þrátt fyrir ákall fjölmargra í samfélaginu hefur ekkert verið að gert. Það er í okkar huga óskiljanlegur seinagangur og sorglegur vitnisburður um vanvirka stjórnsýslu og meðvirk stjórnvöld.

Þar sem áfengisiðnaðurinn beitir öllum hugsanlegum klækjum til að auka söluna er mikilvægt að lýðheilsusinnar snúi bökum saman og berjist af hörku fyrir því að sérhagsmunir áfengisiðnaðarins víki fyrir almannahagsmunum.