Ný hreyfing á traustum grunni
Bindindissamtökin IOGT á Íslandi er ný hreyfing á traustum grunni og er upprunnin á Akureyri 10. janúar 1884. Meginviðfangsefni samtakanna er forvarnastarf, en auk þess skipa mannúðar-, friðar- og menningarmál og umhverfisvernd veigamikinn sess í stefnu þeirra og starfi.
Félagar IOGT eru kjarninn í samtökunum og á þeim byggist starfið hverju sinni. Innan samtakanna starfa stúkur, eins og deildir og félög innan samtakanna eru kölluð, og litlir hópar um ákveðin viðfangsefni. Nýir félagar geta gengið til liðs við starfandi deildir, gerst beinir félagar að samtökunum án þess að vera félagar í ákveðinni deild, eða stofnað nýja deild og valið sér eitt eða fleiri verkefni til að vinna að.
Meginviðfangsefni samtakanna er forvarnastarf
Mannúðar-, friðar- og menningarmál
Umhverfisvernd
Félagar IOGT eru kjarninn í samtökunum
IOGT er öllum opið.
Eina skilyrði fyrir félagsaðild er yfirlýsing um að neyta hvorki áfengis né annarra vímuefna.
Aðsetur og félagsaðstaða IOGT er í Víkurhvarfi 1 á Vatnsendahæð í Kópavogi.
Lög Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi Drög að breytingum (Samþykkt á landsþingi Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi 3. maí 2016).
1. grein Almennar reglur 1-1 Markmið Bindindissamtökin IOGT á Íslandi eru hluti alþjóðahreyfingar IOGT (IOGT-I). Þau skulu í starfi sínu vinna fylgi hugmyndum IOGT-I um bindindi, bræðralag og frið eins og þeim er lýst í alþjóðlegum grundvallarreglum IOGT-I. Markmið IOGT er að fólk um allan heim njóti frelsis og tilgangsríks lífs. Bindindissamtökin IOGT á Íslandi vilja… -Vinna fylgi lífsháttum án vímuefna – og stjórnmálastefnu sem miðar að því að takmarka neyslu áfengis og annarra vímuefna og minnka skaðann sem fylgir henni. -Vinna að því að auka þá virðingu sem fólk ber hvert fyrir öðru án tillits til kynþátta, kyns, trúar- og stjórnmálalegra skoðana leggja sitt af mörkum ásamt IOGT í öðrum löndum til að draga úr fjárhags- og félagslegum mun milli fólks. -Taka þátt í friðarstarfi innanlands og styrkja slíkt starf í heiminum með félögum IOGT í öðrum löndum. -Taka þátt í baráttu fyrir verndun umhverfisins. -Leggja lið raunhæfum aðgerðum og félagslegri þjónustu til að tryggja mannsæmandi líf fyrir fórnarlömb áfengis og annarra vímuefna og fjölskyldur þeirra. 1-2 Félagsaðild Til þess að geta orðið félagi í Bindindissamtökunum IOGT verður umsækjandi að vera orðinn 14 ára og staðfesta IOGT-heitið. Félagar geta menn orðið með því að ganga í deildir IOGT eða að gerast félagar hreyfingarinnar án aðildar að deild. Allir félagar skulu fá félagsskírteini. Allir félagar í IOGT, sem starfa vilja í deild, teljast vera í IOGT-deild þar sem þeir eru búsettir og geta tekið þátt í starfi IOGT í því sveitarfélagi enda þótt þeir séu félagar í deild í öðru sveitarfélagi eða séu félagar starfsgreinadeildar. Félagi þarf að hafa starfað í sex mánuði til þess að geta orðið stjórnarmaður í landsstjórn, umdæmisstjórn eða stjórn deildar. Þessi regla gildir ekki við stofnun deilda.
Allir félagar í IOGT, Barnahreyfingu IOGT og Núll prósent hreyfingunni geta komið á fundi í IOGT. Í sérstökum tilvikum má ákveða að einungis félagar IOGT geti verið viðstaddir afgreiðslu máls. Við afgreiðslu mála hafa aðeins félagar deilda og umdæma (ef þau starfa) atkvæðisrétt. 1-3 IOGT-heitið IOGT-heitið hljóðar þannig: „Ég heiti því að sem félagi IOGT mun ég ekki neyta áfengis eða annarra vímuefna eða stuðla að því að aðrir noti slík efni. Ég skal vinna gegn notkun vímuefna í samfélaginu. Ég heiti einnig að vinna að því að koma á bræðralagi allra manna til að skapa varanlegan frið og betri heim.“ Ef félagi IOGT óskar þess getur hann gengið í stúku með siðareglum.
2. grein Ákvörðunarvald og stjórnir Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi 2-1 Landsþing Landsþing hefur æðsta vald í málefnum IOGT á Íslandi. Hann skal haldinn árlega á þeim stað sem landsstjórnin ákveður. Stað fyrir landsþing skal ákveða með a.m.k. sex mánaða fyrirvara. Aukalandsþing skal halda þegar landsþing, landsstjórn eða meirihluti fulltrúa síðasta landsþings óskar þess. 2-2 Fulltrúar Hver deild á rétt á að kjósa einn fulltrúa á landsþing, enda hafi hún að lágmarki þrjá félaga. Hún öðlast rétt til annars fulltrúa fyrir tíunda félagann og einn fyrir hverja fimm félaga umfram það. – Fari fjöldi félaga í samtökunum, samkvæmt miðlægri félagaskrá, yfir 500 skal kjósa einn fulltrúa fyrir hverja tuttugu félaga eða brot úr tveimur tugum. Kjósa skal jafnmarga varafulltrúa og aðalfulltrúa. Fulltrúaréttur til aukalandsþings er sá sami og til landsþinga. 2-3 Atkvæðis- og tillöguréttur – réttur til að taka þátt í umræðum. Á landsþingi hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt. Allir félagar í Bindindissamtökunum IOGT eiga rétt á að taka þátt í umræðum. Allar deildir og félagar eiga rétt á að leggja tillögur fyrir landsþingið. Tillögur, sem óskað er eftir að fjallað sé um á almennu landsþingi – nema þær sem landsstjórn og nefndir á hennar vegum leggja fram, eiga að vera komnar til landsstjórnar mánuði hið minnsta fyrir fundinn. Tillögurnar, ásamt tillögum landsstjórnar að efni fundarins, skal senda deildum a.m.k. þremur vikum fyrir fundinn.
Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist landsstjórn með a.m.k. sex mánaða fyrirvara. Allar tillögur, sem lagðar eru fyrir landsþingið, skal fjalla um í nefnd eða landsstjórn nema landsþingið ákveði annað. 2-4 Landsstjórn og framkvæmdaráð Landsþingið kýs níu manna landsstjórn: Formann, varaformann, ritara, gjaldkera og fimm meðstjórnendur. Landsþingið kýs auk þess þrjá varamenn sem koma inn í stjórnina eftir röð ef einn eða fleiri stjórnarmenn láta af störfum. Landsstjórn getur tekið ákvarðanir ef a.m.k. helmingur hennar er á fundi. Landsstjórn er heimilt að skipa framkvæmdaráð hið minnsta þriggja manna. Landsstjórnin stýrir starfi Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi og er æðsta stjórn þeirra milli landsþinga. IOGT á Íslandi er skuldbundið af formanni og gjaldkera í sameiningu. 2-5 Nefndir og önnur trúnaðarstörf Landsþing IOGT á Íslandi kýs þriggja manna fjármálanefnd og fjölmiðlanefnd, þriggja manna kjörnefnd og tvo skoðunarmenn reikninga. Landsstjórnin skipar aðrar nefndir og sérstaka fulltrúa. Landsþingið eða landsstjórnin setur starfsreglur fyrir nefndir og menn í trúnaðarstörfum – eftir því sem nauðsynlegt þykir.
3. grein Svæðisráð 3-1 Valdssvið – Verkefni Heimilt er að stofna svæðisráð á tilteknu svæði. Hlutverk þess er að vera eignarhaldsfélag um eignir deildanna þar og jafnframt samstarfsvettvangur þeirra að öðru leyti. Það skal stuðla að eflingu starfs á svæðinu. Ef svæðisráð er lagt niður tekur landsstjórn IOGT við eignum þess. 3-2 Skipan ráðsins Fulltrúar deilda, sem aðild eiga að svæðisráði, skulu ákveða hve margir skipa ráðið og hvernig kosningu til þess skuli hagað í fyrsta sinn. 3-3 Aðalfundir Aðalfundur svæðisráðs skal haldinn í aprílmánuði ár hvert og skal hann boðaður skriflega til allra deilda IOGT á svæðinu með minnst 6 vikna fyrirvara. Á aðalfundi fara fram venjuleg aðalfundarstörf. Þar skal leggja fram skýrslu ráðsins. Kjósa skal svæðisráðið og tvo skoðunarmenn
reikninga. Auka-aðalfund skal halda ef meira en helmingur deilda á svæðinu krefst þess. Fulltrúaréttur er þá hinn sami og á síðasta aðalfundi. 3-4 Framkvæmdastjórn Svæðisráðið kýs úr sínum hópi framkvæmdastjórn. Hún skal skipuð að minnsta kosti þremur félögum, formanni, ritara og gjaldkera. 3-5 Fulltrúar Deildir innan Bindindissamtakanna IOGT á svæðinu eiga rétt á að kjósa til aðalfundar ráðsins einn fulltrúa fyrir hverja tíu félaga í deildinni samkvæmt félagaskrá um sl. áramót fyrir aðalfund hverju sinni og síðan einn fulltrúa fyrir hverja næstu tíu félaga eða brot úr þeirri tölu. Deildir barna og ungmenna innan IOGT á svæðinu eiga rétt á að kjósa einn fulltrúa hver til aðalfundarins. 3-6 Reikningar Svæðisráðs Svæðisráðið skal senda skýrslur og reikninga til landssambandsins.
4. grein Umdæmi 4-1 Valdsvið – Verkefni Heimilt er að skipta landinu í umdæmi. Landsstjórnin ákveður stærð þeirra. Breyting á umdæmum skal gerð í samráði við þau. Nafn umdæma ræðst af landsvæðum: IOGT í …. 4-1-1. Umdæmið skal – sem milliliður deildanna í umdæminu og landssambandsins – a) vinna að stofnun IOGT-deilda í sínu umdæmi b) hafa umsjón með að deildirnar starfi í samræmi við lög, reglur og venjur í IOGT 4-1-2. Umdæmið skal sem fræðslu- og kynningaraðili a) skipuleggja námshringi og kynningarstarf b) útvega ræðumenn og styðja deildir á annan hátt 4-2 Stjórn umdæmanna og nefndir Á aðalfundi er kjörin stjórn a.m.k. þriggja manna. Formaður, ritari og gjaldkeri skulu kjörnir sérstaklega. Umdæmisstjórnin getur tekið ákvarðanir þegar a.m.k. helmingur stjórnarmanna er viðstaddur. Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga. Umdæmið skal senda ársskýrslu og reikninga til landssambandsins.
Umdæmið ákveður í sérstökum lögum sínum hvaða nefndir skulu starfa á þess vegum og hvort þær skulu kosnar á umdæmisfundum eða skipaðar af stjórninni. 4-3 Fundir, fulltrúar, umræðu- og atkvæðisréttur Umdæmið skal halda a.m.k. tvo fundi á ári. Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. maí Aðalfund skal boða með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Á aðalfundi skal t.a.m. fjallað um skýrslu stjórnar, reikninga, starfsáætlun og tillögur. Þar fara einnig fram kosningar. Auka-aðalfund skal halda ef meira en helmingur deilda krefst þess. Fulltrúaréttur er þá hinn sami og á síðasta aðalfundi. Ef aðalfundur er ekki haldinn á þeim tíma sem kveðið er á um í lögum og umdæmisstjórnin boðar ekki til hans innan viku eftir tilmæli frá formanni landssambandsins getur hann eða formaður umdæmisins í umboði hans boðað fundinn. Fulltrúar og varafulltrúar eru kjörnir árlega eftir þeim reglum sem umdæmið setur sér. Á aðalfundi hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt. Allir félagar Bindindissamtakanna IOGT í umdæminu eru kjörgengir sem fulltrúar á aðalfundinum. Skilyrði fulltrúaréttar er að lögákveðnar skýrslur og gjöld hafi verið send. Allir félagar IOGT, Barnahreyfingar IOGT og Núll prósent hreyfingunni eiga rétt á að taka þátt í umræðum á fundum. Allar deildir og einstakir félagar eiga rétt á að leggja tillögur fyrir fundi umdæmisins. 4-4 Aukalög fyrir umdæmin Umdæmið skal setja aukalög með nauðsynlegum ákvæðum um starfsemi sína – enda falli ákvæðin innan ramma þessara laga. Aukalögin öðlast ekki gildi nema formaður IOGT samþykki þau.
5. grein Deildir 5-1 Stofnun deildar Deildir í IOGT geta skipulagt starfsemi sína sem stúka eða IOGT-félag. Stofnun deildar skal tilkynnt landsstjórn á þann hátt sem hún ákveður. Landsstjórnin getur lagt deild niður ef hún starfar ekki í samræmi við lög IOGT. Deild skal lögð niður ef félagar hennar eru færri en þrír tvö almanaksár í röð. Ef deild heldur ekki fundi eða sendir ekki lögboðnar skýrslur í eitt ár getur landsstjórn samþykkt að leggja hana niður.
5-2 Að leggja niður deild Fjalla verður um og taka ákvörðun um tillögu um að leggja niður deild á auka-aðalfundi sem boðaður er með a.m.k. fjögurra vikna fresti með bréfi til allra félaganna. Tillaga um að leggja niður deild telst felld ef hún er ekki samþykkt með 2/3 hluta atkvæða. landsstjórn skal skýrt frá tillögunni a.m.k. fjórum vikum áður en fjallað er um hana. Formaður hennar eða sá sem stjórnin tilnefnir á rétt á að mæta á aðalfundinn með umræðu- og tillögurétt. Á auka-aðalfundi, sem fjallar um að leggja niður deild, má ekki taka fyrir önnur mál. Á tillögu um að ganga úr IOGT skal líta sem tillögu um að leggja deildina niður. landsstjórnin getur heimilað að starf verði hafið að nýju í deild ef þrír IOGT-félagar, sem vilja verða félagar hennar, óska eftir því. 5-3 Embættismenn í stúku Á aðalfundi stúku, sem haldinn skal árlega, skulu kjörnir þessir embættismenn: Æðstitemplar, varatemplar, ritari, fræðslustjóri, gjaldkeri og kapelán. Ef fráfarandi æðstitemplar getur ekki tekið sæti fyrrum æðstatemplars, eða óskar eftir að taka það ekki, má kjósa annan í það embætti. Aðalfundur stúku getur ákveðið að einn maður fari með fleiri en eitt embætti. Það gildir þó ekki um embætti æðstatemplars, ritara og gjaldkera.. Á aðalfundi skulu kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga og skulu þeir ekki vera í framkvæmdanefnd. Í framkvæmdanefnd skulu vera a.m.k. þrír félagar. Æðstitemplar, gjaldkeri og ritari eru sjálfkjörnir. Stúkan ákveður sjálf hvort þeir skulu vera fleiri. Stúkan getur einnig kosið, eða framkvæmdanefndin skipað, þessa embættismenn: Gæslumann barnastarfs, gæslumann ungmennastarfs, vörð og söngstjóra. Framkvæmdanefndin stýrir starfi stúkunnar milli funda, undirbýr mál sem fjalla skal um og vinnur þau verkefni sem stúkan felur henni. Framkvæmdanefndin er ákvörðunarhæf ef meirihluti hennar er á fundinum. 5-4 Stjórn IOGT-félags Aðalfundur félags velur stjórn sem a.m.k. skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera. Stjórnin er ákvörðunarhæf ef meirihluti hennar er á fundinum. 5-5 Framlög
Framlög til verkefna, sem ekki eru á vegum Bindindissamtakanna IOGT, skulu samanlagt ekki nema hærri upphæð en 50.000 kr. á ári (m.v. vísitölu í árslok 2015. Endurskoða skal upphæðina með tilliti til verðbreytinga). landsstjórnin verður að veita samþykki sitt ef óskað er að veita hærri framlög en það. 5-6 Aðalfundur Aðalfund skal halda fyrir 1. mars og skal hann fjalla um t.a.m. skýrslu stjórnar, reikninga, starfsáætlun og tillögur. Þar skulu og fara fram kosningar. Aðalfundurinn skal boðaður með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Ef aðalfundur er ekki haldinn á tilskildum tíma og stjórnin boðar ekki til hans eftir tilmæli frá formanni IOGT á Íslandi getur hann boðað til fundarins. Auka-aðalfund skal halda ef stjórnin ákveður það eða a.m.k. 2/3 félaga krefjast þess. 5-7 Eignir deilda sem lagðar eru niður Ef deild er lögð niður tekur landsstjórn IOGT við eignum hennar. 5-8 Fasteignir Engin deild getur orðið eigandi eða meðeigandi fasteignar, selt fasteign eða hluta hennar eða tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar umfram eignir, nema ákvörðun um kaup, sölu eða skuldbindingu hafi verið lögð fyrir landsstjórn til samþykktar og hefur hún endanlegan ákvörðunarrétt. Í þinglýstri yfirlýsingu um sérhverja fasteign í eigu deilda skal geta þess að landsstjórnin verði að samþykkja sölu hennar. Peningar, sem greiddir eru fyrir fasteign, skulu varðveittir og ávaxtaðir á þann hátt sem best er talið. 5-9 Skjöl Engin deild má farga skjölum eða öðru efni sem hefur sögulegt gildi. 5-10 Skýrslur Deild skal senda skýrslu um starf sitt til aðalskrifstofunnar á eyðublöðum sem til þess eru ætluð – fyrir 1. febrúar ár hvert.
6. grein Starfsgreinadeildir Landsstjórnin getur komið á fót deildum innan starfsgreina. Hún staðfestir reglur sem settar eru um starf þeirra. Deildir verða að starfa á þann hátt að samræmist lögum og reglum í IOGT.
7. grein – Aðrar reglur 7-1 Árgjöld
Félagar skulu greiða árgjald til landssambands IOGT og deilda – og skal því skipt til helminga milli þeirra. Upphæð árgjalds skal ákveðin á landsþingi. Nýir félagar greiða fullt árgjald ef þeir ganga í hreyfinguna fyrri hluta árs en hálft árgjald ef þeir ganga í hana síðari hluta árs. Þegar nýjar deildir eru stofnaðar fellur árgjaldið í heild til þeirra. Árgjöld skulu innheimt af aðalskrifstofu sem annast miðlæga félagaskrá hreyfingarinnar. Heimilt er að fela deildum innheimtu árgjalda ef þær óska þess. Félaga, sem ekki hafa greitt gjald sitt 1. júní á næsta ári eftir að það féll á, er hægt að setja á aukaskrá. Vilji deildin ekki fara þannig að er hún ábyrg fyrir gjaldinu. Ef árgjaldið hefur ekki verið greitt í lok næsta árs eftir að það féll á fer félaginn á aukaskrá. Skrifstofu IOGT ber að tilkynna deildunum hvaða félagar skulda árgjald. Landsstjórnin getur sett sérstakar reglur um árgjöld þeirra sem eru félagar bæði í Barnahreyfingu eða Ungmennahreyfingu IOGT – og IOGT á Íslandi. 7-2 Brot á lögunum Félaga, sem brýtur gegn lögum IOGT eða kemur þannig fram að líklegt sé að skaði hagsmuni IOGT, má, eftir að málið hefur verið rannsakað, setja á aukaskrá eða víkja úr félaginu, ef það er samþykkt með 4/5 atkvæða í fullskipaðri stjórn deildar félagans eða landsstjórnar. Félaginn getur krafist þess að fá að gefa skýringar og leiða vitni. Félagi, sem hefur rofið heit um bindindi á áfengi og önnur vímuefni, getur endurnýjað heit sitt. Að öðrum kosti verður honum vikið úr félaginu. Inna skal hann eftir hvort hann óski að endurnýja heitið. Ef hann vill það verður hann að undirrita beiðni um endurnýjun og taka fram að hann viðurkenni að vera áfram bundinn af IOGT-heitinu. Stjórn IOGT-deildarinnar greiðir atkvæði um hvort við beiðninni skuli orðið og ræður einfaldur meirihluti. Ákvörðunin skal kynnt í deildinni. Ákvörðuninni má áfrýja til landsstjórnar. 7-3 Vanhæfni Vanhæfir félagar geta ekki tekið þátt í meðferð mála er falla undir 7. grein. Hið sama gildir um þátttöku í umræðum og töku ákvarðana um mál sem varða framlög, kaup eða sölu fasteigna eða aðra fjárhagslega samninga milli félaga í IOGT og einstaklinga, fyrirtækja eða félaga utan IOGT. Félagar eru vanhæfir ef þeir eru kvæntir/giftir, í óvígðri sambúð með eða trúlofaðir, náskyldir eða eða á annan hátt í sérstöku sambandi við þann sem er aðili að málinu. Þeir eru einnig vanhæfir ef þeir eru í stjórn fyrirtækis eða félags sem aðild á að málinu. Vanhæfir félagar mega ekki sitja fundi þar sem fjallað er um málið. Ef deild getur ekki tekið ákvörðun vegna vanhæfni skal stjórn landssambandsins fá málið til meðferðar. 7-4 Fundir og leiga húsnæðis Deild er ekki heimilt að leyfa í húsnæði sínu samkomur eða viðburði sem telja verður að stríði gegn grundvallarreglum IOGT – eða aðhafast neitt slíkt á fundum sínum eða í öðru starfi.
8. grein Barna- og ungmennastarf 8-1 Barnahreyfing IOGT á Íslandi Starf á vegum IOGT meðal barna fer fram í Barnahreyfingunni. Hún setur sín eigin lög innan þess ramma sem grundvallarreglur IOGT marka. Barnahreyfingin er í nánu samstarfi við Bindindissamtökin IOGT á Íslandi og Núll prósent ungmennahreyfingu IOGT. 8-2 Ungmennahreyfing IOGT á Íslandi, Núll prósent hreyfingin Ungmennahreyfing á vegum IOGT setur sín eigin lög innan þess ramma sem grundvallarreglur IOGT marka. Núll prósent er í nánu samstarfi við Bindindissamtökin IOGT á Íslandi og Barnahreyfingu IOGT.
9. grein Félagsstarfið Reglustarf á vegum IOGT fer einkum fram í undirstúkum hreyfingarinnar. Reglur fyrir siðastarf eru ákveðnar af landsstjórninni. Hún velur þrjá menn til að stýra reglustarfinu. 10. grein Fræðslustarf Landsstjórnin velur einn stjórnarmann til að hafa umsjón með fræðslu og námskeiðahaldi. Það gera einnig stjórnir umdæma og deilda. 11. grein Heiðursveitingar Heiðursfélagi Deildir geta gert tillögu um að félagi, sem starfað hefur að minnsta kosti 25 ár eða er orðinn 65 ára, verði kjörinn heiðursfélagi IOGT á Íslandi. Kjörinu fylgja engin sérréttindi. 12. grein Lagabreytingar Lögum IOGT á Íslandi verður einungis breytt á landsþingi með a.m.k. 2/3 atkvæða. Bindindissamtökin IOGT á Íslandi eru eini löglegi arftaki Stórstúku Íslands IOGT, sem í voru undirstúkur, þingstúkur og umdæmisstúkur.
SJÁLFBÆRNI
Hér verður efni í dálkinum sem snýr að sjálfbærni.
HEILBRIGÐI
Hér verður efni í dálkinum sem snýr að heilbrigði.
MENNTUN
Hér verður efni í dálkinum sem snýr að menntun.
RÆKTUN
Hér verður efni í dálkinum sem snýst um ræktun matvæla.
BREYTUM RÉTT
Á meðan fátækt, óréttlæti og ójafnrétti finnst, getur enginn unað sér hvíldar. Það þarf ekki að gera svo mikið til að breyta lífi, Hafið samband í dag og byrjið á breytingunni.