Í gær afhentu Aðalsteinn Gunnarsson æðstitemplar, Gunnar Þorláksson Ritari, Kolbrún Hauksdóttir fyrrverandi æðstitemplar, Loftur Hauksson gjaldkeri, Kristín Þóra Gunnarsdóttir varatemplar fulltrúar IOGT stúkunnar Einingarinnar nr.14 verkfæri til notkunar í fangelsum fyrir tómstundir fanga.

Félagar IOGT hafa unnið að ýmsum góðgerðarmálum frá stofnun 1884 og hafa Einingarfélagar safnað í vetur og ákváðu að leggja féð í nokkur góðgerðarmál svo sem til Píeta samtakanna og í tómstundir fanga. Iðnvélar í Kópavogi veittu ráðgjöf og veglegan afslátt til að leggja málefninu lið. Halldór Valur Pálsson forstöðumaður fangelsa og deildarstjórar á Litla Hrauni tóku vel á móti gjöfinni. Þeir sögðu gjöfina höfðinglega og myndi nýtast vel. Einingarfélagar vonast til að verkfæragjöfin yrði til að örva alla sem þau nota til góðra hluta. Gunnar Þorláksson ritari Einingarinnar rifjaði upp þegar hann kom í mars 1967 með 10.000 króna gjöf frá IOGT hreyfingunni til Litla Hrauns. Halldór staðfesti að verkfæragjöf sú hafi leitt til uppsetningar á föndurstofu Litla Hrauns, ráðningu Eiríks Guðmundssonar smiðs frá Stokkseyri sem leiðbeinenda og eflingar tómstunda fanga. Enn er hægt að finna nokkur sporjárn á trésmíðaverkstæðinu sem voru gefin fyrir 54 árum. Halldór Valur fangelsisstjóri sagði aðeins frá sögu fangelsisins og fjölgun úrræða fyrir fanga ásamt verkefnum sem unnin eru þar sem ýta undir iðjusemi og aukna vellíðan fanga.