IOGT á Íslandi hefur ásamt breiðfylkingu forvarna samtaka sent ný gögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem þeir hafa til skoðunar verklag framkvæmdavaldsins í tengslum við netsölu áfengis. Að sjálfsögðu vonumst við til að þessi graf alvarlegu mál verði skoðuð ofan í kjölinn.

Hér er skjalið í heild:  2024.10.16 Ný gögn til SEN Alþingis frá forv samtökum 16.10.2024

Hér er úrdráttur úr sendingunni:

Nýtt frumvarp
Þann 30. september 2024 var birt frumvarp til breytinga á áfengislögum – vefverslun, í samráðsgátt stjórnvalda. https://island.is/samradsgatt/mal/3834
Í frumvarpinu er fjallað um innlenda vefverslun sem geti bæði verið í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Í frumvarpinu er staðfest að sú netsala sem fer fram innanlands í dag, af lager sem er staðsettur á Íslandi, er smásala og hún er ólögleg. Hún er ólögleg þegar eigandi verslunar er erlendur lögaðili. Hún er einnig ólögleg þegar eigandi verslunar er innlendur lögaðili.

Í frumvarpinu segir m.a.
     „Aftur á móti gerir löggjöfin ekki ráð fyrir að heimilt sé að starfrækja sambærilegar innlendar vefverslanir vegna þess einkaleyfisfyrirkomulags sem til staðar er. Þrátt fyrir það er starfræktur fjöldi innlendra vefverslana, ýmist í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Með frumvarpinu er stefnt að því að heimila sölu áfengis í gegnum innlenda vefverslun og marka fyrirkomulaginu lagalegan ramma, svo sem um hvernig staðið er að leyfisveitingu, hvernig eftirliti skuli háttað og um sölu og afhendingu áfengis sem keypt er.“
„Þrátt fyrir að gildandi áfengislöggjöf heimili ekki rekstur innlendra áfengisvefverslana hefur nokkur fjöldi slíkra vefverslana fest í sessi á síðast liðnum árum. Þessar innlendu áfengisverslanir eiga það sameiginlegt að vera með lager og starfsmenn á Íslandi, þó að eigandi verslananna sé eftir atvikum erlendur eða innlendur lögaðili.“                                                                                                       „Með því er ætlunin að bregðast við þeirri stöðu að fjöldi innlendra vefverslana selur áfengi til íslenskra neytenda í smásölu þrátt fyrir að ekki sé mælt fyrir um slíka starfsemi í áfengislöggjöf.“
      „Frumvarpinu er ekki ætlað að stuðla að aukinni neyslu áfengis heldur að leggja til nýtt fyrirkomulag að lögum og þannig marka lagalegan ramma um það fyrirkomulag sem nú er til staðar án heimildar.“ 
      „Frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og felur ekki í sér beinar tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.“

Á einum stað í texta er farið með rangfærslu um óvissu að okkar mati miðað við annað innihald frumvarpsins (kannski gleymdist að taka þetta út úr eldri útgáfu).
„Verði ekkert aðhafst mun áfram ríkja óvissa um lögmæti innlendra vefverslana með áfengi sem hvorki má telja ásættanlega stöðu fyrir hið opinbera né hinn almenna borgara.“

Að mati forvarnarsamtakanna hefur dómsmálaráðuneytið vitað mjög lengi að netsala eins og hún fer fram hérlendis hafi verið ólögleg. Eigi að síður hefur ráðherra ekkert gert árum saman til að sporna við ólöglegu athæfi. Slík vinnubrögð eru ámælisverð.

Varðandi vitneskju ráðuneytis og tímaramma skal rifjað upp að árið 2015 má sjá merki um samskipti ráðuneytisins við aðila utan þess um netsölu áfengis. Í svarbréfi ráðuneytisins stílað á Lögmenn Lækjargötu ehf. frá 4. desember 2015, undirritað af Hermanni Sæmundssyni og Þórunni J. Hafstein, er vísað til minnisblaðs lögmanna Lækjargötu dags. 21. ágúst 2015 varðandi það álitaefni hvort vefverslun með áfengi, hvort heldur í smásölu, heildsölu og umboðssölu gangi gegn einkaleyfi ÁTVR til sölu og afhendingu áfengis.

Í svarbréfinu tekur ráðuneytið fram að ..„almennt verði að líta svo á að ákvæði laga nr. 75/1998 taki til verslunar með áfengi og tóbak, óháð því hvort um er að ræða vefverslun eða annað form verslunar.“ Þá er spurningum fyrirspyrjanda í öllum tilvikum svarað á þann hátt ..“að öðrum en ÁTVR er óheimilt að selja eða afhenda áfengi í smásölu.“ Í lok bréfs er hnykkt á þessu sbr. „Ef um er að ræða afhendingu áfengis í smásölu til neytenda þarf afhendingin að eiga sér stað fyrir tilstilli ÁTVR.“

Eins og rakið var í punktum sem fulltrúar forvarnarsamtaka afhentu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fundi þann 18. september 2024 og finna má á foreldrasamtok.is, þá eru spurnir af því að til séu álit, jafnvel nokkur, í dómsmálaráðuneyti og jafnvel fjármála- og efnahagsráðuneyti sem sýni að netsalan sem fer fram á Íslandi sé ólögleg. Gögn hafi jafnvel farið á milli ráðuneytanna, en setið sé á þeim. Við teljum eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kalli eftir því hjá ráðuneytinu hvort slík gögn séu til. Því ef stjórnsýslan á til gögn samin innan ráðuneytis eða utan, þar sem færð eru rök fyrir því að netsalan sé ólögleg og lykilráðherrar hafi ekki brugðist við árum saman, eru það viðbótarrök um að vinnubrögð ráðherra hafi verið óeðlileg og óásættanleg í þessu máli.

Ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu um verklag

Okkur hafa borist ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu sem við teljum að nefndinni beri að skoða. Þau bárust okkur þann 25. september 2024 í kjölfar kæru okkar til Úrskurðarnefndar um upplýsingmál þann 10. september 2024. Kæran var reist á svarleysi dómsmálaráðuneytis við fyrirspurnum okkar frá 10. maí 2024 og ítrekun frá 30. júlí 2024.

     „Vísað er til erindis þíns, dags. 10. maí 2024, þar sem óskað er upplýsinga um hvort dómsmálaráðuneytinu hafi borist erindi eða fyrirspurnir frá Félagi atvinnurekenda um svör um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst, auk afrita af erindunum og svara ráðuneytisins við þeim. 
     Dómsmálaráðuneytinu hafa borist erindi frá Félagi atvinnurekenda um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst. Afrit af erindunum eru hér í viðhengi, auk svars ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda.“

Gögnin, sem eru rakin hér neðar, varpa ljósi á samskipti Félags atvinnurekenda, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.

Þá er hér einnig vísað til annarra gagna sem mikilvæg eru þegar rakið er hvernig verklag og starfshætti ráðherrar hafa sýnt varðandi fyrirkomulag netsölu áfengis á Íslandi. Forvarnarsamtökin telja gögnin sýna að ráðherrarnir hafi sýnt ámælisvert athafnaleysi og tómlæti á sínu málasviði. Þeir
hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og sýnt óeðlilega og óvandaða stjórnsýsluhætti í málinu.

Aðdragandi

Þann 20. mars 2024 óskuðu fulltrúar forvarnasamtaka eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tæki upp til skoðunar þá stöðu sem nú ríkir vegna svokallaðrar netsölu áfengis innanlands í ljósi þess að stjórnsýslan s.s. lykilráðherrar og lykilstofnanir hafi ekki brugðist við henni í áravís. Samtökin hafa leitað til fjölda aðila innan stjórnsýslunnar til að freista þess að fá málið skoðað án árangurs þar til okkur  var bent á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er sérstaklega ætlað að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá getur nefndin fjallað um málefni Stjórnarráðsins í heild.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kærði tvær netsölur 16. júní 2020 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Málið hefur verið til skoðunar hjá embættinu í ríflega 4 ár og er enn í vinnslu.

Sökum viðbragðsleysis ráðherra um lögmæti netverslana hefur fjöldi netverslana hafið starfsemi og selt og afhent áfengi í smásölu beint til neytenda á nokkrum mínútum frá því að pöntun var gerð.
Þessi staða hefði ekki komið til ef yfirvöld hefðu brugðist við. Nú síðast hóf öflug verslun með rótgróna stöðu á íslenskum matvörumarkaði, Hagkaup, áfengissölu innanlands. Stöðuna má kalla „villta vestrið“ svo gripið sé beint niður í erindi Félags atvinnurekenda til Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra, frá 15. desember 2021 og getið er hér neðar.

Að okkar mati er netsalan eins og hún fer nú fram á Íslandi á skjön við lög. Nýlegt frumvarp dómsmálaráðherra sem var birt í samráðsgátt 30. september 2024 staðfestir það mat. Við höfum samt skilning á því að nefndin nýti ekki tíma sinn til að skoða lagalega stöðu sjálfrar netsölunnar.

Við teljum, óháð lagalegri stöðu netsölunnar, rétt og nauðsynlegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði ákvarðanir og verklag fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra í ljósi þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ráðherrar bera ákveðnar skyldur á grunni þeirra laga sem undir þeirra málefnasvið heyrir s.s. um sölu áfengis. Ráðherrar hafa skyldur til að leiðbeina um réttaróvissu á sínu málefnasviði. Þeir hafa yfirstjórnar- og eftirlitsskyldur. Skoða verður hvort ákvarðanir og verklag ráðherranna, um að grípa ekki inn í ástandið heldur leyfa því að viðgangast og þannig skapa „villta vestrið“, hafi verið eðlilegt á þessum tíma m.a. í ljósi leiðbeiningar-, eftirlits- og yfirstjórnarskyldna.

Í stað þess að sinna skyldum sínum hafa ráðherrar ekkert gert. Þeir hafa ekki beitt því eftirliti sem þeim er unnt samkvæmt lögum að mati forvarnarsamtakanna. Þeir hafa ekki svarað fyrirspurnum um málið og er þar nærtækast að benda á ítrekaðar fyrirspurnir Félags atvinnurekenda árið 2021. Ráðherrar hafa þannig vikið sér undan leiðbeiningarskyldu sinni.

Teljum við að nefndinni beri að hafa til hliðsjónar lög um um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 sem tilgreina að ráðherrar beri ábyrgð á málefnasviðum sínum. Séu mál alvarleg þá megi samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 krefja ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.

Hér er skjalið í heild:2024.10.16 Ný gögn til SEN Alþingis frá forv samtökum 16.10.2024