Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að ólögleg áfengissala verður loks stöðvuð

Eftir bið í meira en hálfan áratug er loks komin niðurstaða um að íslenska svindlaðferðin við netsölu áfengis af lager innanlands er ólögleg. Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að kæra ÁTVR á hendur netsöluaðila áfengis hafi leitt til ákæru lögreglu. Skorað er á stjórnvöld að standa vörð um lýðheilsu og almannaheill.

Niðurstaða þessi kemur ekki á óvart því lagabókstafurinn er ótvíræður eins og samtökin hafa ítrekað bent á og fært rök fyrir. Samtökin telja því að netsöluaðilar eigi ekki rétt á skaðabótum. Ef svo ólíklega vill til að skaðabótaréttur er til staðar, ættu stjórnvöld að greiða slíkar bætur. Ódýrara er að greiða þær en allan þann

samfélagsskaða sem verður ef aðgengi að áfengi verður aukið með afnámi einkasölu ríkisins á áfengi.

Það er í hæsta máta gagnrýnivert að stjórnvöld og stjórnsýsla skuli hafa sett málið aftast í forgangsröðina í fjölmörg ár og gefið þannig áfengisiðnaðinum færi á að leika lausum hala til að grafa undan einkasölu ríkisins á áfengi. Ólögleg netsala hefur hvatt til aukningar á neyslu áfengis með tilboðum og afsláttum á áfengi þvert á markmið lýðheilsustefnu stjórnvalda. Þá hefur slík netsala einnig þverbrotið reglur um sölutíma á áfengi. Sala þessi er meðal annars talin hafa stuðlað að aukinni unglingadrykkju og hafa samtökin miklar áhyggjur af þeirri þróun. Einkasala ríkis á áfengi er það sölufyrirkomulag sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með og rannsóknir og vísindi sýna að reynist best til að vernda lýðheilsu og almannaheill.

Samtökin skora á stjórnvöld að sýna samfélagslega ábyrgð og láti af því að þjóna aðilum sem vilja gera verslun með áfengi að gróðalind. Seinagangur stjórnvalda hefur stóraukið hættu á að samstaðan um að viðhalda einkasölu ríkis á áfengi brotni niður. Ætla má að ólöglegir söluaðilar muni nú krefjast lagabreytinga til að geta selt og grætt sem mest fyrir sjálfan sig, þótt slíkt auki samfélagskostnað um á annað hundrað milljarða króna árlega. Netsöluaðilar greiða ekki samfélagsskaðann það gera skattborgararnir.

Samtökin krefjast þess að stjórnvöld geri nú það sem allir stjórnmálaflokkar segjast sammála um, sem er að auka fræðslu og þekkingu í áfengis- og nikótínforvörnum. Slíkt er gert með því að halda á lofti sannreyndri þekkingu og

vísindum.

Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.

Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Samtökin skora á stjórnvöld að hlaupa ekki eftir þeim sem hafa hundsað landslög til að geta hagnast sem mest á sölu áfengis í eigin þágu á kostnað samfélagsins. Nær væri að hlusta á breiðfylkingu heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri sem hafa ítrekað skorað á stjórnvöld að fylgja stefnu sem sannreynt er að þjóni

samfélaginu og sé til almannaheilla.

Fréttatilkynning þessi er sendu út í nafni Forvarnarsamtakanna, Fræðslu og forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.