Guðrún Torfadóttir og Björn S. Einarsson formaður IOGT fóru í Hólavallakirkjugarð laugardaginn 11. janúar síðastliðinn og hittu afkomendur Þorvarðar Þorvarðarsonar sem afhjúpuðu nýtt minnismerki um hann konu hans og þrjá syni sem þar eru jörðuð. Við athöfnina var einstaklega aðlaðandi hópur, bæði afkomendur, makar og fulltrúar frá Leikfélagi Reykjavíkur, IOGT á Íslandi og félagi prentara. Eftir athöfnina í garðinum var hist á vinnustofu Kjarvals í Austurstræti og þar voru haldnar fróðlegar ræður og spjallað.  Björn sagði m.a. Frá fundartíma stúknana sem var kl.8:30 á kvöldin þegar við byrjuðum í Stúkunni. Vitnaði í Pétur Zóphóníasson heitinn stúkumann sem hafði lofað Þorvarð fyrir einstaka samvinnu og dugnað. “Og mér aldrei fallið samvinna betur við aðra” sagði Pétur.

Í Morgunblaðinu og á vef mbl.is var skrifað um Þorvarð. Í viðtali við Sólveigu Kristínu Einarsdóttur rithöfund barnabarn hans segir hún „Þorvarður Þorvarðarson afi minn var afar merkilegur maður sem naut vinsælda og virðingar á sinni tíð. Hann var málamiðlari og flinkur að ná fólki saman en líka dugnaðarforkur og mikill baráttumaður fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Hann var með gott jarðsamband og vissi hvernig fólkinu leið. Ég hefði mjög gjarnan viljað hitta hann og jafnvel ganga með honum eins og eina 1. maígöngu,“

Hér eru brot úr lífshlaupi Þorvarðar:

  • Þorvarður Þorvarðarson, fæddist 23. maí 1869 að Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd
  • Þorvarður hóf prentnám 15 ára gamall í júní 1884 hjá Sigmundi Guðmundssyni í Skólastræti og vann þar uns prentsmiðjan brann 1885. Haustið 1886 var hann tekinn inn í fyrsta bekk Lærða Skólans þar sem hann stundaði nám næst tvo vetur en vann við prentverk á sumrum.
  • Þorvarður hætti skólanámi 1889 og sigldi í ágúst til Kaupmannahafnar og var þar einn vetur í prentsmiðju J.H. Schultz. Sneri þá heim og vann í Ísafoldarprentsmiðju í nokkur ár en síðan í Félags- og Aldarprentsmiðju.
  • Í júní 1902 setti hann á stofn Prentsmiðju Reykjavíkur og rak til 1905, er hann og fleiri prentarar stofnuðu Gutenberg, en hlutafélagið keypti prentsmiðju hans.
  • Gutenberg fól Þorvarði alla framkvæmd við stofnun prentsmiðjunnar og fór hann utan og keypti vélar í Danmörku, letur í Svíþjóð og réð sænskan yfirprentara.
  • Þorvarður var kjörinn forstjóri prentsmiðjunnar og hélt því starfi meðan hún var rekin sem hlutafélag, en vann til æviloka á skrifstofu prentsmiðjunnar eftir að hún varð ríkiseign 2. janúar 1930.
  • Þorvarður var stofnandi Hins Íslenzka Prentarafélags (HÍP) og fyrsti formaður þess 1897-98. Hann var upphafsmaður að stofnun Sjúkrasamlags prentara og fyrsti formaður þess 1897-98 og ritari samlagsins 1901. Upp úr því varð Sjúkrasamlagið til og síðar Sjúkratryggingar Íslands.
  • Verkamannasamband Íslands var stofnað 29. október 1907 og stóðu að því Verkamannafélagið Dagsbrún, HÍP og aðilar úr Bárufélögunum. Kosið var sjö manna sambandsráð og var Þorvarður formaður þess.
    • Bæjarfulltrúi i Reykjavík 1912-24.
    • Sæmdur riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu 1. desember 1929.
    • Heiðursfélagi HÍP 1929.
    • Heiðursfélagi Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur, 3. febrúar 1932 á 65 ára afmæli, var hann gerður að heiðursfélaga þess.
    • Heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur 1934
  • Í ársbyrjun 1904 hóf Þorvarður útgáfu á blaðinu Nýja Íslandi fyrir alþýðu alvarlegs og skemmtandi efnis.
  • Á sautján ára afmælisdegi sínum 1886 gekk Þorvarður í stúkuna Eininguna nr. 14. Árið 1899 var Þorvarður kjörinn í framkvæmdanefnd Stórstúkunnar og stórgæslumaður ungtemplara. Hann starfaði mikið í Góðtemplarareglunni og var Stórtemplar 1921-1924.
  • Árið 1897 stofnaði hann Æskuna fyrsta barnablað á Íslandi ásamt Sigurði Júl. Jóhannessyni.
  • Á árunum 1896-1897 reistu iðnaðarmenn í Reykjavík samkomuhús á uppfyllingu við norðurausturenda Tjarnarinnar með rúmgóðu sviði. Iðnaðarmannahúsið fékk fljótlega gælunafnið Iðnó og notað bæði til samkomuhalds og leikhús. Þorvarður beitti sér fyrir því að ná saman helstu leikurum bæjarins í leikfélag og sameinuðust tvö félög sem höfðu staðið fyrir leiksýningum í Fjalakettinum og Gúttó í Leikfélag Reykjavíkur 11. janúar 1897,.en iðnaðarmenn áttu frumkvæðið að stofnun þess.
  • Fyrsti formaður LR til 1904, var Þorvarður Þorvarðarson, Árni Eiríksson varaformaður, Friðfinnur Guðjónsson ritari og Borgþór Jónsson gjaldkeri. Margir aðrir höfðu komið að málum ekki síst Indriði Einarsson, en það var Þorvarður sem dró þyngsta hlassið þegar kom að því að búa til starfhæft leikfélag. Fyrsta leiksýning á vegum LR fór fram í árslok 1897.
  • Þorvarður Þorvarðarson lést 13. október 1936.