Í dag er efst á baugi hinn gríðarlegi þrýstingur áfengisiðnaðarins að opna fyrir netverslanir þó að smásala í slíku formi sé ólögleg öðrum en ÁTVR. Núna þurfum við öll að staldra við og horfa á heildarmyndina. Það eykur ekki velferð og lýðheilsu samfélagsins með því að auka aðgengi að áfengi. Umræðunni er freklega stýrt af þröngum hópi sem hefur ítrustu hagsmuna að gæta við að græða sem mest. Áfengisiðnaðurinn í heild sinni hefur ekki hagsmuni okkar að leiðarljósi. Það er margt sem við verðum að huga að þegar við hugum að forvörnum. Markmiðið er að draga úr notkun áfengis og annara vímuefna. Ástæðan er skýr og rökin liggja fyrir.
Við höfum sameinast um vinda ofan af þessari upplýsingaóreiðu sem ríkir um málið því samfélagið vill sannarlega ekki aukna byrði af notkun áfengis. Allt of margir hafa misst tökin og þurft að fara í meðferð sem sanna þá staðhæfingu að varla er til sá einstaklingur hér á landi sem ekki er snertur með einhverjum hætti af neikvæðum afleiðingum notkunar áfengis. Yfirvöld þekkja vel hvernig notkun áfengis veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu skaða m.a. vegna heilsubrests og félagslegra vandamála.

Umræðan á að snúast um lýðheilsu, barnavernd, mannréttindi, velferð einstaklinga og samfélags. Markaðsöflin mega ekki fá lausan tauminn til að auka notkun áfengis. Áfengi er engin venjuleg neysluvara og það veldur skaða hjá einstaklingi og samfélaginu upp á 150 milljarða króna á ári. Breytingarnar sem þrýst er á um hér munu auka þann kostnað um a.m.k.14%.
Það er eitt að óvandaðir einstaklingar brjóti lög og reglur en það er vont að stór verslun snúist gegn okkar velferð og lýðheilsu almennt. Áfengisiðnaðurinn stendur hér leynt eða ljóst á bakvið og beitir verslunum sem hafa það eitt að markmiði að græða peninga. Nú hafa þeir afvegaleitt umræðuna inn á einhver smáatriði sem þeir segjast hafa rétt á að gera því einhver annar geri það. Stöndum hér vörðinn og aukum ekki aðgengi að áfengi. Förum varlega í að trúa öllu sem talsmenn áfengis halda fram, hvaða stöðu sem þeir gegna. Það má sjá að þeir eru aðeins að hugsa um ítrustu hagsmuni þeirra sem hagnast fjárhagslega af aukinni sölu.
Höldum umræðunni á lofti um að áfengi er engin venjuleg neysluvara! Við eigum ekki að þjóna ítrustu hagsmunum þeirra sem tengjast áfengisiðnaðinum svo þeir geti hagnast meira á kostnað samfélagsins.