Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur í samvinnu við Mosfellsbæ unnið að þróun hugmyndar um uppbyggingu þjónustu við börn í landi Skálatúns í Mosfellsbæ.
Skálatún er rekið af IOGT á Íslandi, samtök með það að markmiði að móta enn betra samfélag með manngildi að grunni. IOGT á Íslandi hefur ákveðið að ánafna fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna. Í Skálatúni í Mosfellsbæ er stefnt að uppbyggingu á samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Markmiðið er að þar komi saman á einn stað helstu stofnanir og samtök sem koma að þjónustu við börn og ungmenni auk úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda. Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar geti verið staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda. „Í Skálatúni felast mikil sóknarfæri til að bæta og samþætta þjónustu við börn og ungmenni. Nýta má fjölbreyttan húsakost og staðsetningu Skálatúns vel til að stytta fjarlægðina milli hinna ýmsu þjónustuaðila og auka þannig samtal og samstarf þeirra á milli. Ég vil sérstaklega þakka IOGT á Íslandi fyrir afhendingu þessara eigna í þetta mikilvæga verkefni og Mosfellsbæ fyrir gott samstarf um verkefnið. Ég hlakka til áframhaldandi uppbyggingar þjónustu á svæðinu á grunni þeirra gilda sem starfsemin að Skálatúni hefur ávallt staðið fyrir,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
„Þann 30. janúar 1954 stofnaði Stórstúka Íslands, nú Bindindissamtökin IOGT á Íslandi, sjálfseignarstofnunina Skálatún. Þann dag fluttu fyrstu börnin á Barnaheimili Templara við Skálatún eins og það hét þá. Eitt þeirra barna býr enn í Skálatúni. Bindindishreyfingin á Íslandi var þarna brautryðjandi á Íslandi í að bæta þjónustu við fatlaða. Skálatún hefur starfað í þágu fatlaðra í hartnær 70 ár. Nú er komið að leiðarlokum og er við hæfi að loka nú hringnum með hag barna að leiðarljósi. Stjórnir Skálatúns og IOGT fagna því að geta stutt þessa stórhuga uppbyggingu þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á Íslandi með því að ánafna eignir Skálatúns í þetta verkefni,“ segir Björn Sævar Einarsson, stjórnarformaður Skálatúns og formaður IOGT á Íslandi. „Stjórn Skálatúns fagnar samningi við Mosfellsbæ og óskar bænum velfarnaðar í að þjónusta íbúa Skálatúns. Stjórn Skálatúns þakkar öllu starfsfólki í gegnum tíðina fyrir vel unnin störf og þakkar öllum félögum í IOGT á Íslandi fyrir þeirra óeigingjörnu sjálfboðaliðastörf í Skálatúni síðastliðin 70 ár. Að lokum óskar stjórn Skálatúns öllum íbúum Skálatúns velfarnaðar og þakkar þeim auðmjúklega að hafa fengið að þjóna þeim eftir mætti.“