Það er með stolti sem við fögnum með öllum sjálfboðaliðum landsins sem hafa lagt góðum málum lið. Guðjón er verðugur fulltrúi IOGT á Íslandi með þessa útnefningu. Þakklæti er í okkar huga til allra hann er fulltrúi fyrir. Félagasamtök þrífast aðeins ef félagarnir eru tilbúnir að leggja lið við það sem þarf að gera og er Guðjón þar til fyrirmyndar.

Almannaheill, samtök þriðja geirans óskuðu í byrjun nóvember eftir tilnefningum frá félögum sínum um sjálfboðaliða ársins í tilefni dags sjálfboðaliðans sem er 5. desember ár hvert. Þetta er í fyrsta sinn sem Almannaheill útnefna sjálfboðaliða ársins.

Valið á sjálfboðaliða ársins er liður í að þakka þeim fjölmörgu sem leggja til tíma og orku í starfsemi félagasamtaka á ári hverju. Sjálfboðaliðar vinna að fjölbreyttum verkefnum, bæði þau sem eru vel sýnileg en ekki síður hins sem fjölmargir sjálfboðaliðar vinna að „á bakvið tjöldin“ og eru því ekki alltaf í sviðsljósinu.

Fjölmargar góðar tilnefningar bárust. Eftir ítarlega yfirferð var ákveðið að útnefna Guðjón Bjarna Eggertsson, sjálfboðaliða hjá IOGT, sem sjálfboðaliða ársins 2022. Í tilnefningunni kemur meðal annars fram: „Guðjón hefur frá barnæsku lagt starfi IOGT lið í frítíma sínum. Þau eru óteljandi sporin sem hann hefur hlaupið á bindindismótunum í Galtalækjarskógi í áratugi. Guðjón er virkur félagi og heldur utan um félagsstarfið í sinni deild auk þess að leggja lið þeim verkefnum sem þurfa aðstoð. Guðjón hefur komið að barnastarfi, ungmennastarfi og starfað með eldra fólki. Guðjón er bóngóður og friðsamur, lausnamiðaður og skemmtilegur.

Af umsögnum um Guðjón og samtölum við þá sem með honum starfa er ljóst að Guðjón Bjarni er sjálfboðaliði af lífstíl og öðrum til fyrirmyndar. Um leið og Almannaheill óska Guðjóni Bjarna til hamingju með útnefninguna viljum við þakka honum og öllum öðrum sjálfboðaliðum fyrir þeirra óeigingjarna framlag í þágu félagasamtaka og samfélagsins.

Guðjón Bjarni starfar á vöktum sem strætisvagnabílstjóri og hefur stundum þurft að aðlaga vaktir sínar til að geta sinnt verkefnum sínum sem sjálfboðaliði. „Ég er að gera það sem þarf að gera en er þar ekki í áberandi hlutverki. Ég er Guðjón bakvið tjöldin,“ segir Guðjón Bjarni Eggertsson sjálfboðaliði ársins.

Almannaheill eru regnhlífarsamtök þriðja geirans sem voru stofnuð 2008 til að auka þekkingu og skilning stjórnvalda, fjölmiðla og almennings á hlutverki sjálfboðaliða og samtaka þeirra. Almannaheill vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd þeirra, efla stöðu þriðja geirans í samfélaginu og koma fram fyrir hönd hans gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum. Þá vinna samtökin að því að heildarlöggjöf verði sett um starfsemi frjálsra félagasamtaka, að skattaleg staða þeirra verði bætt, og að sýnileiki þriðja geirans í þjóðfélaginu verði aukinn.