Forvarnarsamtök afhenda félags- og vinnumarkaðsráðherra áskorun þann 29. apríl 2024 um að staðinn verði vörður um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis. Frá vinstri: Árni Guðmundsson, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, Björn Sævar Einarsson, IOGT, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Árni Einarsson, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Aðalsteinn Gunnarsson, IOGT.

 

Breiðfylking forvarnarsamtaka átti fínan fund með félags- og vinnumarkaðsráðherra þann 29. apríl 2024. Erindið var að ræða félagslegar afleiðingar þess ef netsala áfengis, eins og hún er stunduð á Íslandi, verður látin viðgangast. Samtökin láta sig lýðheilsu og félagslega velferð varða. Þau tala fyrir því að velferð fólks gangi framar ólöglegri markaðsvæddri netsölu áfengis. Um þessar mundir ræða samtökin við forystumenn í stjórnmálum um hvernig tryggja megi að landslögum sé fylgt, ólögleg netsala áfengis stöðvuð og lýðheilsa varin eins og lög gera ráð fyrir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra, tók vel á móti samtökunum. Rætt var um lýðheilsu þjóðarinnar, félagslega velferð og þýðingu hennar í því velsældarhagkerfi sem stefnt er að. Rætt var um hlutverk ÁTVR en hún hefur einkarétt samkvæmt lögum á smásölu og afhendingu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Sýn ráðherra og forvarnarsamtakanna fór saman í öllum atriðum.

Fundað með fleiri í forystu stjórnmálaflokka á næstunni

Á næstunni munu samtökin hitta fleiri ráðherra og forystufólk í stjórnmálaflokkum til að fara yfir málin. Nú þegar er búið að funda með dómsmálaráðherra. Í lok fundar afhentu samtökin ráðherra gögn. Einnig var afhent áskorun til alþingismanna frá 13. febrúar 2024 um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.

Gögn afhent ráðherra: