Reykjavík 14. júní 2022

Kæri þingmaður, hér er opið bréf frá IOGT á Íslandi.

Það er ljóst að gríðarlegur þrýstingur áfengisiðnaðarins hefur náð yfirhöndinni í meðferð frumvarpa um breytingar á áfengislögum. Hér stendur til að lauma í gegn breytingum sem kollvarpa okkar áfengissölukerfi sem samfélagið hefur staðið sátt um í áratugi. Hér er verið að auka aðgengi að áfengi þvert á ráðleggingar sérfræðinga hérlendis og erlendis í forvörnum. Hér hefur ekki farið fram raunverulegt lýðheislumat eða kallaðir til ráða þeir sem vinna mest í forvörnum á Íslandi. Aðgerð sem þessi brýtur í bága við alls kyns sáttmála sem þingmenn hafa samþykkt og samfélagið vill standa á bakvið.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, sem yfirvöld á Íslandi hampa sem góðum ráðgjöfum í heilbrigðismálum, hafa nýverið samþykkt að draga úr áfengisneyslu um 20% fyrir árið 2030. Nýjasti fundur Alþjóðaheilbrigðisþingsins (WHA75) samþykkti sögulega ákvörðun um alþjóðleg viðbrögð við skaða af völdum áfengisiðnaðarins. WHA75 samþykkti einróma alþjóðlega áfengisaðgerðaáætlun WHO (2022-2030) og styður þar með yfirgripsmikla áætlun – forgangsverkefni í lýðheilsu – með metnaðarfullum markmiðum og aðgerðum gegn áfengi. Þar var einnig harmað hve forvarnir hafa veikst síðustu 10 ár.

Hvað ætlar þú gera? Vinna með eða á móti Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni?

Barnaréttarnefnd sameinuðu þjóðanna birti þann 9. júní sl. tilmæli sín til íslenska ríkisins um nauðsynlegar úrbætur sem miða að því að tryggja áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans á öllum sviðum samfélagsins. Þar kemur skýrt fram að – Styrkja þarf ráðstafanir til að koma í veg fyrir og bregðast við útbreiðslu vímuefna-, áfengis- og tóbaksnotkunar unglinga.

Hvað ætlar þú gera? Vinna með eða móti Barnasáttmálanum (sem er hluti af íslenskum lögum)?

Ísland er aðili að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif og hindrar að minnsta kosti 14 af 17 markmiðunum og 52 af 169 undirmarkmiðum. Hvað ætlar þú gera? Vinna með eða gegn Heimsmarkmiðunum?

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þá stuðlar áfengisneysla að 3 milljónum dauðsfalla á hverju ári á heimsvísu sem og fötlun og slæmri heilsu milljóna manna. Á heildina litið er neysla áfengis ábyrg fyrir 5,1% af sjúkdómsbyrði á heimsvísu. Hvað ætlar þú gera?

Áfengi er helsti áhættuþátturinn fyrir ótímabær dauðsföll og örorku meðal þeirra sem eru á aldrinum 15 til 49 ára og er orsök 10% allra dauðsfalla í þessum aldurshópi.           Hvað ætlar þú gera?

Áfengi er orsakavaldur í yfir 200 sjúkdóma- og slysaflokkum og stór áhrifaþáttur í ósmitnæmum sjúkdómum (NCD). Alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunin staðfesti árið 1988: ”Áfengir drykkir eru krabbameinsvaldandi fyrir mannfólk.” Þetta var árið áður en bjór var leyfður á Íslandi. Áfengi veldur krabbameini í munnholi, munnkoki, barkakýlishluta koks, vélinda, ristli, endaþarmi, barkakýli, lifur og gallrás lifrar, sem og í brjóstum. Ekkert magn áfengisneyslu er nógu lítið til að vera öruggt þegar kemur að krabbameini. Á heimsvísu má rekja 4,2% allra dauðsfalla af völdum krabbameins til áfengis. Um 50% allra áfengistengdra krabbmeina er hjá fólki sem drekkur ekki mikið. Hvað ætlar þú að leggja af mörkum til baráttunnar gegn krabbameini?

Öll neysla áfengis er skaðleg og eftir því sem heildarneysla á áfengi í þjóðfélagi vex, þá vex heildarskaðinn. Síðan bjórinn var leyfður á Íslandi, hefur áfengisneysla aukist um 90% og heildarskaðinn aukist. Hvað ætlar þú gera?

Á Evrópusvæðinu deyja næstum milljón manns árlega vegna áfengisneyslu enda er mest neytt af áfengi þar. Tíunda hvert dauðsfall þar er vegna áfengis. Vegna öflugra forvarna á Íslandi hefur neysla áfengis verið minni en í Evrópu, einkum áður en bjórinn var leyfður og því heildarskaðinn minni. Áður sást varla skorpulifur en tilfellum fer sífjölgandi vegna bjórdrykkju. Er markmiðið að ná Evrópu í áfengisneyslu og að 10% deyi hér á landi vegna áfengis? Það væru 220 dauðsföll á ári á Íslandi.  

Samþykkir þú það? Nýjasta kosningaslagorðið er kannski – Fleiri fyrr í gröfina!

Framleiðslublöffið:   „Við seldum þeim þetta sem „sala á framleiðslustað/beint frá býli“ Nisses nærframleiddir sterkdrykkir

Framleiðslublöffið
„Við seldum þeim þetta sem „sala á framleiðslustað/beint frá býli“
Nisses nærframleiddir sterkdrykkir

 Lítum á kostnaðinn vegna áfengisneyslu fyrir þjóðfélagið. Áfengistengdur skaði bitnar líka á öðrum. Heilsufarstjónið er aðeins hluti af því heildartjóni sem áfengi veldur. Tjón af völdum áfengis snertir ekki aðeins þá sem nota áfengi heldur einnig þá sem eru í kringum þá, fjölskyldumeðlimi, vini og vandamenn, vinnufélaga og ókunnugt fólk á götunni. Sveitastjórnir þurfa að reikna með auknum kostnaði vegna aukinnar neyslu. Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi er yfir 120 milljarðar á ári. Vilt þú auka þennan kostnað eða minnka hann?

Í Noregi er kostnaðurinn 100 milljarðar norskar og í Þýskalandi er kostnaðurinn 57 milljarðar evra á ári. Til samanburðar þá fóru 47 milljarðar evra í varnamál í Þýskalandi 2021.

Við viljum benda á gríðarlegt tap fyrirtækja vegna áfengisneyslu. Áfengisneysla veldur fjarvistum frá vinnu og vinnu án einbeitingar. Á Bretlandi er talið að allt að 89.000 manns mæti á hverjum degi í vinnuna með timburmenn eða undir áhrifum áfengis. Efnahagslegi kostnaðurinn er allt að 1,4 milljarði punda. Hvað ætlar þú gera?

Sveitastjórnir og ríkisvaldið þurfa nú þegar bera tjónið af áfengisneyslu. T.d., ofbeldi, heimilisofbeldi, ofbeldi gagnvart börnum.

Umferðarslys. Og svo framvegis. Hvað ætlar þú gera?

Brugghúsin á Íslandi eru lítið tannhjól í spilverki hins alþjóðalega áfengisiðnaðar, þau leggja sinn skerf fram til skaðans sem áfengi veldur bæði hér og á heimsvísu.

Landsbyggðarblöffið
„Undirmönnuð umönnun, skortur á starfsfólki í skólanum og of fáir lögreglumenn eru aðeins nokkur vandamál sem dregur niður landsbyggð Svíþjóðar. En hér í Lingontofta telur fyrirtækið ABSOLUT sig nú hafa fullkomið svar við vandamálinu.“
„Jamm! framleiðsla áfengis á framleiðslustað! Nærsamfélaginu hefur aldrei liðið eins vel!“

Um 200 manns vinna í þessum brugghúsum en biðlistar hjá SÁÁ er nú yfir 500 manns. Hvað ætlar þú gera?

Í Svíþjóð berst áfengisiðnaðurinn líka fyrir að leyfa sölu á framleiðslustað og reynir að nota svipuð rök og koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Í ljós hefur komið að í Svíþjóð stendur risaáfengisframleiðandinn Absolut að baki þessarri baráttu. Absolut ætlar nefnilega að búa til mörg lítil brugghús úti á landsbyggðinni og fara þannig fram hjá sænsku ríkiseinkasölunni. Skyldi það sama vera í gangi hér á Íslandi?

 

Forvarnir skipta miklu máli en sterk lagaumgjörð er nauðsynleg til að ná árangri. Fjármagn til forvarna hefur farið minnkandi og umtal um áfengi eða önnur vímuefni stýrast allt of mikið af fjármagni í gegnum fjölmiðla. Samfélagið vill samt sem áður ekki í heild sinni auka aðgengi að áfengi því þá mun neyslan aukast.

Við hvetjum þig, kæri Alþingismaður, til að greiða þitt atkvæði samfélaginu í hag með lýðheilsu að sjónarmiði og ekki styðja aukið aðgengi að áfengi.

Bindindissamtökin IOGT á Íslandi

Björn Sævar Einarsson                              Aðalsteinn Gunnarsson

Formaður                                                    Framkvæmdastjóri