Umsögn IOGT um „reglugerð 2018/302/EB um vörur og þjónustu á netinu.[1]
IOGT á Íslandi telur mikilvægt að sérákvæði í íslenskum lögum gildi áfram hvað varðar einkasölu ríkisins á áfengi.
Evrópureglugerðin geymir almenn ákvæði um vörur og þjónustu á netinu en ekki sérákvæði, t.d. um sölufyrirkomulag á áfengi, svo sem fram kemur á nokkrum stöðum í reglugerðinni þar sem vísað er í landslög. Ekkert í reglugerðinni kveður á um að aðildarríki geti ekki haft landslög um vissar vörur og þjónustu (3. mgr. 3. gr.) og algerlega innlendar aðstæður (2. mgr. 1. gr.) . Ekkert í reglugerðinni bendir til þess að aðildarríki verði að breyta ákvæðum landslaga um takmarkanir á sölu áfengis.
Nánar tiltekið má í sambandi við landslög vísa til eftirtalinna greina í reglugerðinni: 5. inngangstöluliður, 21. inngangstöluliður, 2. mgr. 1. gr. og einkum 3. mgr. 3. gr.
Rétt þykir að í lagafrumvarpi um innleiðingu reglugerðarinnar séu tekin af öll tvímæli um þetta með eftirfarandi grein:
X gr.
Sérákvæði í íslenskum rétti um efni reglugerðarinnar skulu standa.
Lýðheilsumiðuð áfengiseinkaleyfissala er fyllilega lögleg samkvæmt reglum ESB. Þetta var staðfest af Evrópudómstólnum fyrir meira en tuttugu árum síðan og til staðar eru fjölmargar áfengiseinkaleyfissölur sem starfa áfram innan ESB og landa Evrópska efnahagssvæðisins: Svíþjóð, Finnland, Noregur og Ísland eru skýr dæmi þar um.
Ennfremur skal tekið fram að nægi að líta til dóms hæstaréttar Finnlands en hann staðfesti bann við netsölu áfengis (þ.á.m. frá öðrum ESB-ríkjum) eftir að hafa fengið stuðningsúrskurð frá Evrópudómstólnum.
Fyrir hönd Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi
Björn Sævar Einarsson Formaður
Aðalsteinn Gunnarsson Framkvæmdastjóri
[1] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32018R0302