Það verður ef þú vinnur að því er nafnið á nýju námskeiði sem IOGT heldur í vor fyrir börn 12-14 ára.

Námskeið fyrir börn 12-14 ára. Það er hugsað til að styðja börn og unglinga á erfiðum og vandasömum tíma í lífi þeirra og stuðla þannig að farsælum framgangi þeirra í lífinu.

Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 12 til 14 ára Námsgjald er kr. 30.000 fyrir 10 vikna námskeið á þriðjudögum kl. 17:00 til 19:00 byrjar þriðjudaginn 4. febrúar og lýkur þriðjudaginn 7. apríl. Hægt er að fá styrki fyrir námskeiðsgjaldinu, ýmist frístundastyrk eða styrk frá IOGT. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu IOGT í síma 511 1021. Skráning er á: skraning@iogt.is !athugið! takmarkað pláss.

Um námskeiðið: Námskeiðið er hugsað fyrir börn 12-14 ára til að aðstoða þau á erfiðum og vandasömum tíma unglingsáranna. Kennarar námskeiðsins höfðu velt hugmyndinni lengi fyrir sér og langað til að koma á slíku námskeiði. Þegar styrkur bauðst frá IOGT varð kleift að framkvæma hugmyndina. Námsefnið er aðallega fengið úr tveimur áttum:

Börn eru líka fólk er námsefni sem unnið er að nokkru upp úr bandarískum meðferðarnámskeiðum fyrir börn, t.d. „Children are people“ og „Winners Circle“. Stuðst hefur verið við kenningar Dr. Claudiu Black og Dr. Roberts Ackermann, sem hafa áratuga reynslu af meðferð barna og unglinga.

Að ná tökum á tilverunni er námsefni sem unnið er að einhverju leyti upp úr námskeiðum sem hafa verið kennd hér á landi á vegum Lionshreyfingarinnar og voru unnin upp úr bandaríska námsefninu „Lion‘s Quest“. Það námsefni var afhent skólum landsins til að kenna unglingum og var vinsælt til kennslu í lífsleikni.

Markmið námskeiðsins • Stuðla að jákvæðu sjálfsmati • Sjálfsstyrking • Byggja upp tilfinningalega styrkleika • Ábyrgar ákvarðanatökur • Læra að velja og hafna • Tjáskipti og samskipti • Tengsl við fjölskyldu og vini • Samvinna við fjölskyldu og vini • Skemmta sér á ábyrgan hátt

Kennarar námskeiðsins:

Stefán Jóhannsson MA CAP er umsjónarmaður námskeiðsins. Hann lauk ráðgjafanámi frá Hazelden Foundation, Bandaríkjunum 1981, meistaraprófi frá University of America í „Addictive Disease Intervention“, School of Counseling and Family Studies 1984. Hann hefur starfað að ráðgjöf og meðferð áfengis/fíkniefnaneytenda og aðstandenda þeirra síðan 1978 á Íslandi og 14 ár í Bandaríkjunum.

Sigurlína Davíðsdóttir Ph.D. tók grunnpróf í sálfræði frá Háskóla Íslands 1988 og síðan meistarapróf og doktorsgráðu frá Loyola University Chicago, Bandaríkjunum 1998. Hún er meðal stofnenda Krýsuvíkursamtakanna og hefur verið formaður þeirra lengst af þar til árið 2015. Hún hefur starfað við kennslu barna, ráðgjöf og meðferð áfengis/ fíkniefnaneytenda og aðstandenda þeirra síðan 1981, fyrst hjá SÁÁ og síðar hjá Krýsuvíkursamtökunum.