Viltu tapa 30 milljörðum í viðbót?

Árleg byrði vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna er 120 milljarðar.

Snemma 2010 kom út merkileg meistararitgerð í heilsuhagfræði, Þjóðhagsleg byrði af áfengis- og vímuefnaneyslu, eftir Ara Matthíasson, þjóðleikhússtjóra.
Þar er niðurstaðan sú að árleg byrði Íslendinga af neyslu áfengis og vímuefna (byggt á gögnum frá 2008) var um 50 milljarðar að frátöldum kostnaði vegna ótímabærra dauðsfalla. Sé kostnaður vegna dauðsfalla, bæði slys og sjúkdómar, tekinn með þá var byrðin allt að 87 milljarðar. Miðað við hækkun vísutölu og einnig aukna þekkingu á skaðsemi áfengis og annarra vímuefna má áætla að í dag séu þetta nú yfir 120 milljarðar á ári. (Hvað kostar nýr Landspítali? Eða léttlest til Keflavíkur? Hvað má bora mörg Vaðlaheiðargöng fyrir 120 milljarða?) Það er merkilegt hvað lítið fer fyrir umræðu um vímuefnavandann í kosningabaráttunni – vanda sem kostar þjóðfélagið bara 120 milljarða á ári. Síðan eftir kosningar mun endurtaka sig eins og undanfarin ár að ungir, óreyndir þingmenn láta áfengisiðnaðinn hafa sig að leiksoppi og bera fram frumvarp sem brýtur niður forvarnir gegn eiturlyfinu, áfengi. Landlæknisembættið áætlar að aukin neysla á áfengi gæti aukið þjóðfélagslegan kostnað um allt 30 milljarða á ári! Merkilegt að þessum sömu þingmönnum verður oft tíðrætt um skattbyrði
almennings en finnst sjálfsagt að leggja þennan skatt á, sem er þó ekki aðeins peningar heldur ómæld þjáning og harmur. Sumum þeirra sem berjast fyrir
auknu aðgengi að eiturlyfjum verður tíðrætt um frelsi en það frelsi er eingöngu viðskiptafrelsi. Frelsi til að græða með því að selja fíkniefni og hneppa aðra í ánauð hjá Bakkusi og öðrum eiturlyfjaguðum. Áfengi, samkvæmt WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, er orsakavaldur í 200 sjúkdóma og slysaflokkum. Orsakavaldur í 9 tegundum krabbameina, m.a. brjóstakrabbameini. Áfengi er orsökin í 5,9% dauðsfalla á heimsvísu (bendum á að 60% mannkyns neyta
ekki áfengis og því er þessi prósenta mun hærri hjá þeim sem drekka). Þá er óupptalin öll sú þjáning sem áfengið veldur. Viltu minnka álagið og minnka kostnað í heilbrigðiskerfinu, lögreglunni, dómskerfinu, fangelsiskerfinu? Viltu auka framleiðni og gæði hjá fyrirtækjum? Kjóstu þá að berjast fyrir vímulausum lífstíl, meiri og betri forvörnum og meðferð fíkniefnasjúklinga. Kjóstu ekki þá frambjóðendur sem vilja auka og auðvelda aðgengi að eiturlyfjum, eins og áfengi og kannabis.
Bindindissamtökin IOGT á Íslandi eru mannréttindasamtök sem berjast fyrir betri heimi og bættu mannlífi og telja að skjótvirkasta leiðin til þess sé að lifa vímuefnalausum lífsstíl.

Eftir Björn S. Einarsson
Höfundur er formaður á IOGT á Íslandi.