IOGT á Íslandi

IOGT á Íslandi halda úti ýmsum verkefnum sem hafa að leiðarljósi að byggja upp og styrkja einstaklinga. IOGT hefur haft á stefnuskrá sinni að bæta samfélagið í öllum sínum verkefnum. Sagan ber með sér að IOGT hefur komið víða við og á eftir að gera margt í framtíðinni. Hér á vefnum gefst tækifæri til að kynna sér sumt af því sem er í boði og hvað er á bakvið.  Eitt af verkefnum IOGT eru forvarnir á breiðum grunni. IOGT er í samstarfi við mörg önnur félagasamtök og lætur sér varða það sem er að gerast á þeim vettvangi.


 

Opið bréf til dómara Gettu betur 04.04.2017

Opið bréf til dómara Gettu betur

Opið bréf til Steinþórs Helga Arnsteinssonar, Siðanefndar RÚV og Fjölmiðlanefndar.

Sæll Steinþór og nefndarmenn.

Gettu betur er eitthvert vinsælasta sjónvarpsefni á Íslandi, fjölskyldan safnast saman og horfir á glæst ungmenni svara ótrúlega erfiðum og skemmtilegum spurningum. Á keppnisstað er fullur salur af framhaldsskólanemendum sem hvetja sitt lið áfram og heima sitja grunnskólanemendur sem suma dreymir um að keppa í Gettu betur. Sjónvarpsþáttur sem er einkum fyrir ungmenni og börn og sem sendir þau skilaboð að það er svalt að vera njörður. Spurningahöfundarnir skipa þar hásæti sem gáfaða fólkið sem getur samið allar þessar spurningar.

En nú hefur annar af spurningahöfundum Gettu betur, Steinþór Helgi Arnsteinsson, hagað sér þannig í 5 þætti og lokaþættinum að undrun vekur og verður ekki orða bundist. 

Í lokaþættinum ( http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/gettu-betur/20170331 )

þá kemur spurning (1:06:45) þar sem spurt er um nafn á ljóðskáldi og hljómsveitin Stereolab syngur ljóð á frönsku og undir rennur þýðing Jóns Óskars (feitletrun bætt við):

Við eigum sífellt að vera ölvuð.

Allt er undir því komið: það eitt skiptir máli.

Ef þið viljið ekki finna ógnarhramm tímans leggjast á herðar ykkar og sliga ykkur í duftið,

þá verðið þið að ölva ykkur viðstöðulaust. 

En með hverju? Víni, skáldskap eða dyggðum, eftir geðþótta ykkar.

En ölvið ykkur. 

Og ef svo ber við á hallartröppum, á grænu grasi einhvers skurðar,

í grárri einveru hússins, að þið vaknið og ölvunin hefur dvínað eða er horfin,

þá spyrjið vindinn, ölduna, stjörnuna, fuglinn, klukkuna, allt sem flýr,

allt sem emjar, allt sem veltur, allt sem syngur,

allt sem talar, spyrjið hvað tímanum líði;

og vindurinn, aldan, stjarnan, fuglinn, klukkan munu svara ykkur:

"Það er ölvunarstund! Losið ykkur undan þrældómsoki tímans með því að vera sífellt ölvuð.

Af víni, skáldskap eða dyggðum, allt eftir geðþótta.

Ljóðið er eftir Baudelaire sem lést aðeins 46 ára í sárri fátækt eftir ártuga ópíum- og áfengisneyslu. Hann var einn af upphafsmönnum alls bullsins að tengja listamanninn alkóhólisma og vímu. Það er óskiljanlegt að spurningarhöfundur í Gettu betur semji slíka spurningu fulla af áróðri fyrir ölvun og hún sé lesin upp í sal þar sem flestir eru ungmenni undir áfengiskaupaaldri.

Nokkru síðar (1:19:10) í sama þætti eftir að Hlöðver Skúli í liði Kvennaskólanum svaraði á augabragði spurningu og sparaði þannig lestur upp á þrjár blaðsíður segir Steindór, en hann átti afmæli þennan sama dag: „Ég tek þetta handrit með mér og verð með það á Prikinu í nótt.“ 

Hér minnir hann aftur á að það sem hann hafði sagt í fyrri þætti að hann myndi djamma á afmælinu sínu og nú fram á nótt. Bætir um og gefur Prikinu ókeypis auglýsingu á besta tíma (eða var hún ókeypis?) og það til ungmenna undir áfengiskaupaaldri.

En í fyrri undanúrslitunum sagði Steinþór í spjallinu í byrjun þáttarins mjög undarlega hluti.  

Gettu betur - Kvennó - MA(5 af 7) (http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/gettu-betur/20170323)

(00:01:35  - 00:03:00)

Hér að neðan er skrifað hvað sagt var:
 

Björn Bragi: … verður þetta þyngri keppni?

Steindór: Svoldið þyngra, minna af Noregi, meira af djammi.

 

Björn Bragi: Þið eruð svoldið að lesa liðin og þetta eru tvö djammlið.

Steindór: Þetta eru djammþyrstir einstaklingar og við þurfum að svala þorsta þeirra.

 

Björn Bragi: Þetta eru þrír mestu djammarar Norðurlands á móti .. nei 

 

Síðan spyr Björn Bragi hvað þau ætli að gera á afmælinu sínu en Bryndís, hinn spurningahöfundurinn átti afmæli daginn eftir á og ætlaði hún á Víking Heiðar; Steinþór átti afmæli á úrslitakvöldinu.

 

Björn Bragi: En þú Steinþór, hvað ætlar þú að gera?

Steindór: Ég ætla bara að djamma.

Bryndís: Já, djamma á afmælinu og vera hérna, náttúrulega, á úrslitunum.

Steindór: Ég kannski kíki við ef ég verð ekki kominn í blakkát einhvers staðar.

Slanguryrðin djamm og að djamma þýðir hjá flestum að skemmta sér stíft með áfengi. Steindór og Björn Bragi bera það á keppendur, sem velflest eru of ung til að mega drekka áfengi samkvæmt landslögum, að ekki aðeins brjóti þau lögin heldur geri það ítrekað og af miklu kappi. Steindór lýsir því síðan yfir að hann, Gettu betur spurningastórstjarnan, ætli að djamma, drekka stíft á afmælinu sínu. Hann bítur síðan höfuðið af skömminni með því að gefa í skyn hann muni byrja að drekka áður en þátturinn byrjar. Mun mæta sem sagt ölvaður í vinnuna sína, það er að segja ef hann verði ekki áfengisdauður áður! 

Þetta eru stórfurðulegar samræður sem eiga heima í leikriti um alkóhólisma, en alls ekki í vinsælasta ungmennaþætti á Íslandi. Einhver hjá RÚV hefði nú átt að kveikja á perunni og passa upp á að svona áfengisáróður kæmi ekki fyrir í lokaþættinum en sú er nú ekki raunin.

Læðist að manni grunur um hvort að það gæti verið að þetta væru duldar áfengisauglýsingar?

Það er búið að margsekta RÚV fyrir að flytja áfengisauglýsingar en það sannar líka að áfengisframleiðendur og auglýsendastofur víla ekki fyrir sér að brjóta landslög og spurning hvort þeir hafi laumað almennum drykkjuáróðri inn í þáttinn. Steinþór sagði í lokaþættinum af öðru tilefni: „Skil ekki af hverju RÚV er að borga mér laun.“ Það er alveg ljóst að almenningur í landinu er ekki að borga Steindóri laun til að mæra áfengi og ölvun.

Ég bið Siðanefnd RÚV og Fjölmiðlanefnd að skoða þessa atburði og bregðast við á viðeigandi hátt.

Kæri Steinþór, ég kýs frekar að trúa því að þessi orð þín séu sögð í hugsunarleysi

en að þú sért svona hliðhollur áfengisiðnaðinum og ég óska þér alls hins besta.

 

Björn Sævar Einarsson

Formaður IOGT á Íslandi

Til baka