IOGT á Íslandi

IOGT á Íslandi halda úti ýmsum verkefnum sem hafa að leiðarljósi að byggja upp og styrkja einstaklinga. IOGT hefur haft á stefnuskrá sinni að bæta samfélagið í öllum sínum verkefnum. Sagan ber með sér að IOGT hefur komið víða við og á eftir að gera margt í framtíðinni. Hér á vefnum gefst tækifæri til að kynna sér sumt af því sem er í boði og hvað er á bakvið.  Eitt af verkefnum IOGT eru forvarnir á breiðum grunni. IOGT er í samstarfi við mörg önnur félagasamtök og lætur sér varða það sem er að gerast á þeim vettvangi.


 

Allraheill 01.04.2017

Aðalsteinn Gunnarsson skrifaði í Morgunblaðið 1. apríl um að sterkt lagaumhverfi er þáttur í forvörnum.

Setjum velferð barna og unglinga í forgang og höfnum frumvarpi um aukið aðgengi að áfengi með undirskriftum okkar á www.allraheill.is skrifið undir og dreifið sem víðast.

 

Reykjavík 30. mars 2017

Allraheill - Áskorun

Fyrir Alþingi liggur þingmannafrumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt, smásala áfengis verði gefin frjáls og að leyft verði að auglýsa áfengi.

Laugardaginn 1. apríl verður kaffimorgun í Vinabæ, Skipholti 33 (gamla Tónabíó) þar sem meðal annars verður fjallað um frumvarpið og eru allir velkomnir. Þar verður sett af stað auglýsingaátak í að safna undirskriftum gegn áfengisfrumvarpinu á vefnum Allraheill. www.allraheill.is

Bindindissamtökin IOGT á Íslandi ásamt meirihluta þjóðarinnar er alfarið á móti þessu frumvarpi. Undanfarna mánuði hefur risið upp bylgja einstaklinga og hópa sem telja áfengi ekki passa lengur inn í sinn lífsstíl og kvarta sífellt fleiri undan þrýstingi áfengisiðnaðarins. Samfélagið kallar eftir frelsi frá Áfengisiðnaðinum.

Hér er um að ræða tillögu sem varðar mikla samfélagslega hagsmuni. Við förum þess á leit að fulltrúar okkar á Alþingi tryggi henni vandaða málsmeðferð sem byggir á langtímastefnumörkun í forvörnum og lýðheilsu. Ljóst er að áfengi er engin venjuleg söluvara sem hægt er að setja eingöngu í afmarkað markaðs- og viðskiptasamhengi.

Áfengisneysla er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu. Kostnaður samfélagsins vegna neyslu áfengis birtist víða, m.a. í heilbrigðiskerfinu, löggæslu- og dómskerfinu, tryggingakerfinu og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd. Að ógleymdum áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og nærsamfélag.

Við vekjum athygli á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands segir að bætt lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.

Við förum þess á leit að fulltrúar okkar á Alþingi kynni sér af kostgæfni möguleg áhrif frumvarpsins á lýðheilsu og þjóðarhag og byggi afgreiðslu þess á rannsóknum, ráðgjöf og upplýsingum sérfræðinga í lýðheilsumálum, áfengis- og vímuefnamálum og, ekki síst, þeirra sem sinna málefnum ungmenna.

Stjórnvöld, sveitarfélög og fjölmörg almannasamtök hafa með stefnumörkun og beinum aðgerðum með sterku lagaumhverfi, unnið markvisst að því að draga úr áfengisneyslu íslenskra ungmenna með góðum árangri. Þeim árangri má ekki stofna í hættu. Við hvetjum því alþingismenn til þess að fella frumvarpið.

Til baka