IOGT á Íslandi

IOGT á Íslandi halda úti ýmsum verkefnum sem hafa að leiðarljósi að byggja upp og styrkja einstaklinga. IOGT hefur haft á stefnuskrá sinni að bæta samfélagið í öllum sínum verkefnum. Sagan ber með sér að IOGT hefur komið víða við og á eftir að gera margt í framtíðinni. Hér á vefnum gefst tækifæri til að kynna sér sumt af því sem er í boði og hvað er á bakvið.  Eitt af verkefnum IOGT eru forvarnir á breiðum grunni. IOGT er í samstarfi við mörg önnur félagasamtök og lætur sér varða það sem er að gerast á þeim vettvangi.


 

Umsögn IOGT á Íslandi 2017 17.03.2017
IOGT á Íslandi

Reykjavík 17. Mars 2017

Umsögn IOGT á Íslandi um ,,frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis). 146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal 165  —  106. mál.“ [1]

IOGT á Íslandi leggst gegn umræddu frumvarpi og telur að samþykkt þess muni leiða til aukinnar áfengisneyslu í landinu. Það mun auka þann vanda sem neysla áfengis veldur. Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf. Áfengi hefur mikla sérstöðu sem lögleg vara og fráleitt að um hana þurfi að gilda sömu viðmið og ýmsar aðrar vörur. [2]

Bindindissamtökin IOGT vinna mikið með almenningi í grasrótarstarfi, þar kemur fram mikil andúð samfélagsins á frumvarpinu og er fjöldi kannana sem staðfesta það.[3]

Frumvarp þetta er í algerri mótsögn við heilbrigðisstefnu þessarar sem og fyrri ríkisstjórna.[4] [5] Frumvarpið vinnur gegn samþykktum Alþingis í málefnum barna, kvenna, jafnréttis og ofbeldis ásamt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna[6] sem er hluti íslenskra laga.

Í fyrri umsögnum IOGT á Íslandi sem lesa má á vef alþingis, hafa komið fram margar traustar heimildir sem eru gefnar út á ábyrgð viðurkenndra stofnana, innlendra og alþjóðlegra um vandann sem neysla áfengis veldur. Af þeim er ljóst að vandinn vegna neyslu áfengis er gífurlegur og mikilvægt að leita allra mögulegra leiða til þess að halda honum í skefjum. Umfram allt eru þær þó staðfesting og áminning um að áfengi er engin venjuleg neysluvara og eðlilegt að um hana gildi um margt annað fyrirkomulag og reglur en ýmsar aðrar vörur.

Hér bætum við þó við nokkrum ábendingum:

Árlega er gefin út af IOGT‐NTO og the Swedish Society of Medicine rannsóknarskýrslan „Áfengi og samfélagið“ (Alcohol and Society – a Research Report) og hver skýrsla skoðar afmarkað svið neikvæðra afleiðinga áfengisneyslu og fylgja hér nokkur dæmi:

Árið 2013 var áherslan lögð á áfengisneyslu ungmenna. Þar má sjá að neyslan er enn of mikil sem og skaðsemin. Niðurstaðan er að mikilvægt sé að viðhalda einkaleyfi ríkis á áfengissölu, ströngum lögum varðandi ölvunarakstur og háum skatti á áfengi. [7]

Árið 2014 var áhersla lögð á skaðemi hófdrykkju og sýnt fram á miklu meira tjón af slíkri drykkju en áður var talið.  [8]

Árið 2015 var áhersla lögð á óbein áhrif áfengisneyslunnar þar sem kom sterkt fram að neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar er mikið samfélagsmein. [9]

Árið 2016 var áhersla lögð á krabbamein. Þar kemur m.a. fram að níu tegundir krabbameina eru sterklega orsakatengd áfengisneyslu og í Svíþjóð eru 4,5% krabbameinsdauðsfalla tengd áfengi. Og 30% krabbameinstilfella tengd áfengi eru tengd lítilli eða miðlungs neyslu. Ekki var fjallað um aðra sjúkdóma tengdum áfengi eins og geðsjúkdómum. [10]

Sterk tengsl eru milli áfengisneyslu og kynbundins ofbeldis. Í samþykktri þingsályktun [11] um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 er grein um samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi. Markmið verkefnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök. Að auka fræðslu- og forvarnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.

Bann við áfengisauglýsingum er ein af meginstoðum forvarna og að leyfa auglýsingar kippir henni í burt. Í frumvarpinu er talað um að áfengissalar og –framleiðendur setji sjálfum sér siðareglur en í löndum þar sem slíkar reglur eru, brjóta þeir eigin reglur sífellt. Hér á landi sannast nú þegar, aftur og aftur að áfengisiðnaðurinn brýtur með einbeittum brotavilja landslög sem gilda um áfengisauglýsingar.[12]

Vísindatímaritið Addiction gaf út nú í janúar sérútgáfu sem fjallar um áfengisauglýsingar og kemur þar skýrt fram að áfengisauglýsingar ná sannarlega til barna og ungmenna. [13]

Í mörgum áfengisauglýsingum eru konur hlutgerðar og í sumum er hreinlega ýtt undir kynbundið ofbeldi. [14]

Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi hefur verið reiknaður út í meistararitgerð Ara Matthíassonar 2010 en þar skiptir hann kostnaði í beinan og óbeinan kostnað og er útkoman 50 – 80 milljarðar á ári. [15] Þessi upphæð eykst um 30 milljarða á ári ef frumvarp verður samþykkt.

Í desember var í fréttum samantekt um kostnað 2016 vegna ölvunaraksturs [16] en þar er vísað í skýrslu frá Samgöngustofu[17]

Hverra hagsmuna er verið að gæta?

Per Leimar, sérfræðingur um markaðssetningu áfengis, segir áfengisiðnaðurinn beita óeðlilegum þrýstingi á stjórnvöld og tekur sem dæmi afskipti Costco af atkvæðagreiðslu um áfengislög í Washington ríki í Bandaríkjunum. [18]

Í skýrslu velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. [19] kemur skýrt fram „Stjórnvöld beiti markvissri áfengisstefnu sem hafi það að markmiði að draga úr áfengisneyslu og ölvun og þar með ofbeldi sem tengist henni. Áhrifaríkustu forvarnirnar eru verðstýring og takmarkað aðgengi að áfengi.“

Þann 16. mars 2017 sagði Þorsteinn Víglundsson félags og jafnréttismálaráðherra á ráðstefnu UN women í verkefninu HeForShe „We strongly encouurage men and boys everywhere to become agents of change.“ Þar talaði hann um að vinna skuli að jafnrétti. Aukið aðgengi að áfengi er ekki rétta leiðin til þess samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. [20] 

IOGT á Íslandi er hluti af stærstu áfengisforvarnasamtökum heims. Yfir 62% heimsbyggðarinnar notar ekki áfengi og er það markmið IOGT að draga sem mest úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslunnar. Við teljum að áfengisstefnan á hverjum tíma eigi að þjóna heildarhagsmunum samfélagsins og byggja á traustum rannsóknum. Áfengismálin eru veigamikill málaflokkur og mikið í húfi að stefnumörkun sem þau varðar séu byggð á niðurstöðum rannsókna og forðast ber stefnumótun sem byggist á einföldun, vanþekkingu og úrræðum sem ekki skila árangri. Vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara á almenningur rétt á að áfengisstefna sé vel ígrunduð,  unnin af vandvirkni og farið varlega í breytingar á aðgengi að áfengi og auglýsingabanni. Kostnaðurinn við að hefta aðgang að áfengi er lítill miðað við þann kostnað sem hlýst af neyslu áfengis. Áfengisstefna okkar er sterk og horfa mörg ríki heims til hennar sem góðrar fyrirmyndar. Ef áfengisiðnaðinum tekst að veikja hana á Íslandi mun hann nota það til að veikja forvarnir í öðrum löndum.

[1]  http://www.althingi.is/altext/146/s/0165.html

[2] http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf

[3] http://maskina.is/is/component/content/article/7-frettir/102

[4] https://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/Stefna-i-afengis--og-vimuvornum-desember-2013.pdf

[5] http://www.mbl.is/media/34/10134.pdf

[6] http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html

[7] http://iogt.se/wp-content/uploads/forskningsrapport-eng-20131.pdf

[8] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2014-ENG.pdf

[9] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alcohol_and_society2015_en.pdf

[10] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2016-2017-Engelska1.pdf

[11] http://www.althingi.is/altext/145/s/1640.html

[12] http://www.althingi.is/lagas/146a/1998075.html

[13] http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/add.v112.S1/issuetoc

[14] http://www.bigalcohol.exposed/#marketing

[15]  https://saa.is/wp-content/uploads/2015/03/ritgerd-ara-matthiassonar.pdf

[16]  http://www.ruv.is/frett/thrir-milljardar-vegna-olvunaraksturs

[17] http://www.samgongustofa.is/media/umferd/skyrslur/Slysaskyrsla2016.pdf 

[18] http://www.jsad.com/doi/full/10.15288/jsad.2016.77.577

[19] http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1214.pdf

[20] http://www.heforshe.org/en/barbershop

Til baka