Dómsmálaráðherra gefur boltann á fjármálaráðherra
Dómsmálaráðherra gefur boltann á fjármála- og efnahagsráðherra í nýju svari til forvarnarsamtaka
við fyrirspurn þeirra. Forvarnarsamtök sendu samhljóma fyrirspurnir á dómsmálaráðherra og
fjármála- og efnahagsráðherra þann 27. mars 2024 um athafnaleysi ráðherra og ráðherraábyrgð
vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Í svari dómsmálaráðherra segir „Vegna þeirrar netsölu sem vísað er
til í erindinu hefur áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðað dómsmál á hendur tveimur fyrirtækjum.
Málunum var vísað frá héraðsdómi og hefur hvorki ÁTVR né fjármálaráðherra hafst frekar að, eftir
því sem næst verður komið.“
Beðið svara við fyrirspurn um athafnaleysi og ráðherraábyrgð
Forvarnarsamtök hafa komið því á framfæri um skeið að hið ólöglega ástand hefur varað í nokkur ár.
Samkvæmt lögum hefur ÁTVR einkarétt á sölu og afhendingu áfengis í smásölu á Íslandi. Nokkrir
netsalar selja og afhenda áfengi til neytenda hérlendis á innan við 30 mínútum eftir að pantað er.
Áfengið er selt af lager sem er hér innanlands. Þannig er komið á markaðsdrifnu ástandi í sölu áfengis
á Íslandi þvert á gildandi lög. Netsalarnir hafa ekki leyfi sýslumanns til þessarar sölu eins og lög, sem
falla undir dómsmálaráðherra, gera ráð fyrir. ÁTVR kærði hina ólöglegu netsölu í júní 2020 til
lögreglu. Lögreglan hefur ekki afgreitt kæruna þrátt fyrir að hafa haft málið á borðinu í tæp 4 ár.
Dómsmálaráðherra er sama um þetta ástand og heldur á lofti að stefnt sé að lagabreytingum til að
heimila hina ólöglegu sölu. Ekki er samstaða um slíkar breytingar á stjórnmálavettvangi og því orð
dómsmálaráðherra, um að yfirvofandi sé heimild til smásölu áfengis á netinu, innantóm. Við þessari
stöðu þarfa að bregðast. Sem stendur hefur forvarnarsamtökunum ekki borist svar frá fjármála- og
efnahagsráðherra við fyrirspurn um athafnaleysi og ráðherraábyrgð.