Okkur er annt um heilsuna, áfengisiðnaðurinn á ekki að njóta vafans!
Svo sannarlega er okkur annt um heilsuna. Heilsu okkar, barnanna okkar, fjölskyldu og samfélagsins. Þetta hefur svo sannarlega sannast undanfarna daga þegar sérstakar ráðstafanir eru gerðar eftir tillögum heilbrigðisyfirvalda. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur gefið út leiðbeiningar hvernig má verjast þessari vá og segja yfirvöld hér að mikilvægt sé að fara eftir þessum leiðbeiningum. WHO hefur gefið út fleiri leiðbeiningar hvernig bæta megi lýðheilsu þjóðanna og má nefna varnir gegn neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu. Þær leiðbeiningar eru skýrar. Einkasala ríkisins er þar efst á blaði ásamt auglýsingabanni, háum áfengiskaupaaldri og skattlagningu. Í áraraðir hafa sumir þingmenn á Íslandi ákveðið að hagsmunir áfengisiðnaðarins séu mikilvægari en heilbrigði þjóðarinnar. Kostnaður vegna neikvæðra afleiðinga áfengisneyslu á þjóðina hefur verið að aukast undanfarin ár. Áætlaður kostnaður nú gæti verið um 110 milljarðar á ári sem er varlega áætlað. Í dag fáum við hagnað af sölu ÁTVR upp í þann kostnað því við höfum einkasölu. Það hafa nýlega komið fram hugmyndir um að leyfa vefverslun sem sannarlega myndi ýta undir aukna markaðssetningu og stóraukið aðgengi. Það er ekki verið að tala um rómantíska mynd að fá sent heim einhverja uppáhaldstegund að utan. Það er líka verið að opna á símaforrit þar sem hægt er að panta og sækja í stórmarkað sem hægt er jafnvel að staðsetja slík forrit á skjá í anddyri verslana.

Ísland er með áfengiseinokunarsölu sem IOGT veit að virkar og styður. Það er ástæða fyrir því að áfengi er selt í ÁTVR og það er til að takmarka verð, markaðssetningu og framboð. Þetta eru verkfæri sem hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu en takmarka einnig ofbeldi í samfélaginu.

Leyfum áfengisiðnaðinum ekki að troða upp á okkur þeirri hugmynd að áfengi sé nauðsyn eða valdi ekki skaða án tillits til magns. Aukið aðgengi eða áfengisauglýsingar auka neyslu, við skulum hafna öllum tillögum um tilslakanir á áfengislögunum eða forvörnum í landinu. Snúum bökum saman, tökum upp heilbrigðari lífshætti, verndum börnin, ungmennin og njótum lífsins.