Heilbrigði og áfengisfaraldur í Evrópu. Ekki fremja skemmdarverk á okkar forvörnum.
Ísland er til fyrirmyndar með ansi margt. Margar þjóðir heims horfa til okkar þegar við náum góðun árangri í einhverju til að læra hvernig hægt er að bæta heilsu og líðan sinna þegna. Íslenska módelið er þekkt fyrirbæri í forvörnum og hefur verið tekið upp í 16 borgum Evrópu. Íslenska módelið gengur út á að draga úr neyslu ungs fólks á áfengi og öðrum vímuefnum. Síðustu 20 árin hafa Íslendingar staðið vörð um marga þætti til að draga úr neyslunni en 1998, þegar Íslendingar vermdu toppsætið yfir mestu vímuefnanotkun unglinga í Evrópu en það ár sögðust 42% tíundubekkinga hafa drukkið áfengi síðastliðinn mánuð. Árið 2016 var þetta hlutfall komið niður í 6% og er hvergi lægra í Evrópu. Áfengisiðnaðurinn hefur brotist um á hæl og hnakka og gert margt til að fá unga fólkið til að byrja neyslu fyrr, ýmist löglega eða ólöglega en að jafnaði siðlaust. Áfengisiðnaðurinn vill alla daga gera áfengið meira aðgengilegt því þeir þola illa að eftir því sem einstaklingar byrja að nota áfengi seinna því minna nota þeir. Talsmenn áfengisiðnaðarins beita ýmsum brögðum til að fá til liðs við sig stjórnmálamenn og má finna nokkra slíka á alþingi í dag. Dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði í viðtali á RÚV þann 18. október að „á næsta ári innleiðir ríkisstjórnin Evróputilskipun sem bannar mismunun á sölu vöru og þjónustu eftir búsetu“. Hér er mikilvægt að við látum ekki blekkjast af lygum þegar talað er um að við verðum að samþykkja og láta yfir okkur ganga. Reglugerðin tekur alls ekki yfir sérákvæði sem eru í gildi á Íslandi. Það er vitleysa að fjalla um breytingar sem snerta svo marga fleti í íslensku samfélagi og hafa reynst vel til að bæta heilsu og líðan þjóðarinnar. Breytingar á lögum og reglugerðum sem snerta sölu áfengis þarf að skoða meðfram gildandi forvarnastefnu, heilbrigðisstefnu, löggæslumálum, Barnasáttmálanum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Núna er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra búin að leggja enn eina tillögu í Samráðsgáttina um að leggja niður ÁTVR og einkasölu ríkisins til að áfengisiðnaðurinn geti hagnast meira af sinni sölu. Okkur hefur tekist að ná góðum árangri. Það má enginn fremja skemmdarverk á þeim árangri, ekki einu sinni Dómsmálaráðherra. Allir aðrir ráðherrar þurfa að verja sína málaflokka sem beinlínis skaðast á aukinni áfengisneyslu. Það er engin rómantík að frelsa áfengisiðnaðinn. Það er mikilvægt að leita til þeirra sem vinna í forvörnum þegar kemur að umræðunni um áfengi og önnur vímuefni því auðvelt er að sjá strax hve neikvæð áhrif sumar tillögur hafa á samfélagið. Þó að nokkrir þingmenn hafi sagt að þeir ætli að leggja fram tillögur um aukið aðgengi að áfengi þurfa hinir ráðherrarnir og alþingismenn að hlusta á meirihluta Íslendinga sem ekki vilja auka aðgengi að áfengi og tryggja að ekki sé unnið gegn samþykktum okkar innanlanda og á alþjóðavettvangi. IOGT á Íslandi tekur undir varúðarorð alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinar(WHO) og mælir gegn tillögum sem auka vandann vegna þess áfengisfaraldurs sem geisar í Evrópu.
Vímulaust skref okkar er stórt stökk til sjálfbærni.
Kveðja
Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri
Bindindissamtökin IOGT á Íslandi
Víkurhvarfi 1 203 Kópavogur
www.iogt.is 511 1021
895 5030