Á málþingi sem IOGT á Íslandi, FRÆ-Fræðsla og forvarnir og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum hélt á Grand hótel Reykjavík 22. janúar síðastliðinn var fjallað um stöðuna í ávana- og vímuefnamálum frá ýmsum hliðum og helstu áskoranir framundan. Auk fyrirlesara frá Íslandi voru fyrirlesarar frá Noregi, Svíþjóð og Slóvakíu.

Fyrirlesarar komu meðal annars inn á að almenn notkun samfélagsmiðla auðveldaði aðgang að börnum og ungmennum. Það nýttu seljendur og framleiðendur ávana- og vímuefna sér og sjá mætti beinskeyttari markaðssetningu gagnvart ungu fólki. Það sæist t.d. mjög greinilega á auglýsingum á rafsígarettum og vörum sem þeim tengjast.

Nefnt var að áfengisframleiðendur væru þar áberandi, og tóbaksiðnaðurinn væri þegar farinn að nýta sér möguleika sem skapast við lögleyfingu ýmissa ríkja á fíkniefnum og orðnir umsvifamiklir í framleiðslu og markaðssetningu á rafsígarettum.

Samantekið má segja að sýn fyrirlesaranna hafi verið sú að markaðsöflin séu helsta ógnin gegn árangri í forvörnum í ávana- og vímuefnamálum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti málþingið og sagði að grettistaki hafi verið lyft í ávana- og vímuvörnum frá árunum fyrir síðustu aldamót. Árangur Íslendinga á því sviði vekti nú heimsathygli og erlendar þjóðir leituðu til Íslands sem fyrirmyndar um árangursríkar forvarnir. Hann minntist Snjólaugar Stefánsdóttur sem einnar af forystukonum forvarna á Íslandi og hvatti til að við tækjum upp þráðinn frá brautryðjendunum og mynduðum öfluga bylgju til að efla heilbrigða lífshætti til framtíðar.

Ársæll Már Arnarson sagði að við sæjum nú aukningu á áfengisneyslu hjá ungu fólki eftir stöðuga minnkun um árabil. Ekki séu sjáanlegar breytingar á notkun annarra ávana- og vímuefna fyrir utan notkun rafsígaretta, sem orðin er talsvert almenn meðal íslenskra ungmenna.  Við því þyrfti að bregðast og allt samfélagið þyrfti aftur að blanda sér í forvarnamálin, sérstaklega hjá ungu fólki.

Sven-Olov Carlsson fór yfir að áfengi væri áhættuþáttur fjölmargra samfélagslegra vandamála, svo sem geðræns vanda, líkamlegra veikinda, skólaforðunar, umferðarslysa, atvinnuleysis, skorti á menntun, sambúðarvanda og rótleysis í samfélaginu. Hann sagði að þrýstingur áfengisiðnaðarins á frelsi til sölu og markaðssetningar á áfengi hefði það að markmiði að græða á fíkn fólks. Forvarnastefna (vímuvarnastefna) ætti alltaf að byggjast á skýrum lagaramma, vel rannsökuðum og staðreyndabyggðum aðferðum, samþættingu og samvinnu, meðal annars að tryggja samræmi heilbrigðis- og dómskerfis í að draga úr neikvæðum afleiðingum vímuefnaneyslu. Stefnan ætti að vinna gegn vímuefnanotkun, virða mannréttindi, draga úr framboði og eftirspurn og ekki síst að vernda börn frá vímuefnaneyslu. Stefnan ætti að tryggja aðgengi að læknishjálp, meðferð og ráðgjöf.

Stig-Erik Sörheim sagði skýr merki um að skipulagður iðnaður væri að eflast til muna í kringum framleiðslu, sölu og dreifingu kannabisefna. Lögleyfing á kannabisi í nokkrum ríkjum í Bandaríkjunum hefði ekki komið í veg fyrir svarta framleiðslu og sölu eins og notað var meðal annars sem rök fyrir lögleyfingunni þar. Stig Erik lagði áherslu á að óráðlegt væri að leggja af lög sem eiga að verja okkur gegn ágangi vímuefnasala. Þau hefðu almennt reynst vel, ekki síst samhliða virku forvarnastarfi og góðu aðgengi að meðferð og ráðgjöf.

Kristina Sperkova sagði mikilvægt að almannaheillasamtök virkjuðu grasrótina með sér á ávana- og vímuefnamálum. Iðnaðurinn í kringum ávana- og vímuefni væri ekkert lamb að leika við og fyrirtæki á því sviði fjárfestu hvert í öðru. Tóbaksiðnaðurinn, áfengisiðnaðurinn og kannabisiðnaðurinn hikuðu ekki við að brjóta niður forvarnir eftir því sem hægt væri. Kristina sagði mikilvægt að við misstum ekki sjónar á stóru myndinni í ávana- og vímuefnamálum. Sagði hún almenna umræðu og fjölmiðlaumræðu ekki endurspegla heildarumfang vandans sem ávana- og vímuefni valda á heimsvísu.

Árni Guðmundsson sagði sorglegt að þrátt fyrir vel kortlagða þekkingu á tengslum aðgengis að áfengi og neyslu þess þá freistuðu sumir alþingismenn þess að auka aðgengið og legðu fram lagafrumvörp þess efnis ár eftir ár. Hann benti á mikilvægi þess að skýrar reglur væru um markaðssetningu áfengis og að þeim væri fylgt eftir. Þar hefðum við öll sem borgarar hlutverki að gegna og ættum ekki að sætta okkur við að börnin okkar væru óvarin fyrir hvers kyns áróðri afla sem einungis vilja hagnast á veikleikum annarra.