Á myndinni eru f.v.: Sigurbjörg Helga Sigurgeirsdóttir, frá Æskunni, Aðalsteinn Gunnarsson, frá IOGT og umsjónarmaður hjólaviðgerða, Linda Hrönn Þórisdóttir, verkefnisstjóri Hjólasöfnunar hjá Barnaheillum, Erna Tómasdóttir, sem leikur Matthildi í samnefndum söngleik í uppfærslu Borgarleikhússins, Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri Sorpu, Elsa Margrét Þórðardóttir, og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Hjólasöfnun Barnaheilla hófst í áttunda sinn í dag
Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var hleypt af stokkunum um hádegisbil í dag, 15. mars, í Sorpu á Sævarhöfða. Að þessu sinni var það persónan Matthildur úr samnefndu leikriti í uppfærslu Borgarleikhússins sem afhenti fyrstu hjólin í söfnunina. Þrjár ungar leikkonur skipta með sér hlutverki Matthildar og var það Erna Tómasdóttir sem mætti fyrir þeirra hönd. Hún hvatti þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma hjólum sem ekki eru í notkun til þeirra sem hafa not fyrir þau. Þess má geta að leikritið Matthildur verður einmitt frumsýnt í Borgarleikhúsinu í kvöld. Barnaheill eru í samstarfi við Borgarleikhúsið vegna leiksýningarinnar sem fjallar meðal annars um ofbeldi og vanrækslu en það hefur verið eitt helsta viðfangsefni Barnaheilla að berjast gegn ofbeldi og vanrækslu á börnum.
Söfnunin stendur yfir til 23. apríl og hefjast úthlutanir á hjólum í apríl og standa fram í maí.
Hjólin verða gefin börnum og unglingum sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt verður að sækja um hjól í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga.
Hjólunum verður safnað á endurvinnslustöðvum Sorpu á Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar munu gera hjólin upp undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent. Verkefnið hefur mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu.
Þetta er í áttunda sinn sem hjólasöfnunin fer fram en hún er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.
Um 1800 börn hafa notið góðs af hjólasöfnun Barnaheilla frá því henni var fyrst hrundið af stað árið 2012.
Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir.
Nánari upplýsingar veitir Linda Hrönn Þórisdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, linda@barnaheill.is, í síma 821 8758