Kópavogur 17. september 2018
Kæri Alþingismaður. Velkominn til starfa á nýju þingi.

Bindindissamtökin IOGT á Íslandi eru friðar og mannréttindasamtök sem vinna í forvörnum. Við teljum að skjótasta leiðin til að bæta heiminn sé að efla vímulausan lífsstíl.
IOGT á Íslandi hvetur þig og aðra alþingismenn til að leggja ekki fram tillögur um aukið aðgengi að áfengi eða leyfa auglýsingar og aðra markaðssetningu áfengisiðnaðarins. Ljóst er að áfengisiðnaðurinn heldur áfram að beita þrýstingi til að auka sölu á áfengi. Einnig hvetjum við þig til að hafna öllum tillögum um aukið aðgengi að öðrum fíkniefnum.

Áfengi er engin venjuleg neysluvara! Æ fleiri rannsóknir styðja þau sannindi. Nýjasta samantektin á rannsóknum sýnir að öll neysla áfengis er óholl og heilsuskaðandi. (1)
Ísland hefur samþykkt að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030. Áfengi hefur neikvæð áhrif á 13 af 17 meginmarkmiðum og hindrar þannig framgang markmiðanna. Þér sem alþingismanni ber skylda til að vinna að því að markmiðin náist. (2)

Íslendingar hafa tekið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og vilja beita sér fyrir auknum mannréttindum. Áfengisiðnaðurinn ræðst freklega inn í líf fólks með áróður sem við eigum tilkall til að vera laus undan, sérstaklega börn og ungmenni.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að börn og ungmenni eigi að vera laus undan þrýstingi áfengisiðnaðarins að byrja neyslu (33. gr). Þrátt fyrir það hefur áfengisiðnaðurinn komist upp með að beina auglýsingum sínum að þeim hópi sem við eigum að halda hlífiskildi yfir. (3)

Jafnrétti kynjanna er 5. heimsmarkmiðið. Áfengi kemur við sögu í allt að 80% tilfella kynbundins ofbeldis. (4) Þann 16. mars 2017 sagði Þorsteinn Víglundsson þáverandi félags og jafnréttismálaráðherra á ráðstefnu UN women í verkefninu HeForShe „We strongly encourage men and boys everywhere to become agents of change.“ Þar talaði hann um að vinna skuli að jafnrétti. Aukið aðgengi að áfengi er ekki rétta leiðin. Aukin neysla áfengis mun alltaf bitna á konum. (5)

Heilsa og vellíðan er 3. heimsmarkmiðið. Áfengi er orsakavaldur í yfir meira en 200 sjúkdóma- og slysaflokkum, og er þekktur krabbameinsvaldur. (6)
Drögum saman úr beinum og óbeinum kostnaði samfélagsins vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna. Kostnaður vegna löggæslu, dómsgæslu, fangelsisvistunar, félagsþjónustu, heilsugæslu, o.s.frv. hefur hækkað í samræmi við aukna neyslu áfengis og annarra vímuefna. Beinum kröftum og fé í auknar forvarnir og meðferð. Það vantar úrræði sérstaklega fyrir ungt fólk. Slíkt mun borga sig tífalt. Heilbrigði og lýðheilsa þjóðarinnar er að veði.

Kæri þingmaður, – vilt þú að það standi á spjöldum sögunnar að þitt helsta baráttumál á Alþingi hafi verið að auka eiturlyfjaneyslu og stuðningur við eiturlyfjaiðnaðinn? Heilbrigði og lýðheilsa þjóðarinnar, Þitt er valið.

(1)https://www.thelancet.com/action/showPdf?pii=S0140-6736%2818%2931310-2
(2)http://iogt.is/wp-content/uploads/2018/03/Alcohol-and-SDGs_new.pdf
(3)http://www.barnasattmali.is/
(4)http://iogt.se/wp-content/uploads/IOGT-3300-Rapport_ENG.pdf
(5)https://heforshe.is/barbershop-verkfaerakistan-kynnt-hofudstodvum-sameinudu-thjodanna/
(6)http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkohol-och-cancerrapport-2016_ENG.pdf